Mikael Gorbachev, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna gagnrýnir Bandaríkin harkalega í viðtali við þýskt blað, sem birt er í dag. Gorbachev líkir bandarískri utanríkisstefnu við alnæmi, banvænasta sjúkdóm sem geisar á jörðinni.
Forsetinn fyrrverandi segir að Bandríkjamönnum hafi ekki tekist að losa sig úr kalda-stríðs hugarfarinu og áhrif þeirra í alþjóðastjórnmálum fari minnkandi, meðan Rússland, Kína, Brasilía, Evrópa, Indland og Japan styrki sig í sessi.
Gorbachev nefnir kjarnorkusprengingu Norður-Kóreu, sem dæmi. Aðeins Kína og Rússland séu í stöðu til þess að hafa einhver áhrif þar í landi. Hann segir að Bandaríkjamenn verði að skilja að í framtíðinni verði þeir að vinna með öðrum þjóðum og taka sameiginlegar ákvarðanir í stað þess að gefa skipanir.
Forsetinn fyrrverandi sagði að Bandaríkin og önnur vestræn ríki hefðu glutrað niður tækifæri til þess að
gera heiminn að betri stað, eftir fall Berlínarmúrsins. Á þeirri stundu hefðu vesturlönd eingöngu hugsað um eigin hag. Þau hefðu haft meiri áhuga á að græða á hnattvæðingunni en að bæta stjórnmálaástandið í heiminum.