Stjórn kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi hefur samþykkt að leggja til við aðalfund ráðsins, sem haldinn verður 4. október, að haldið verði prófkjör 18. nóvember til að velja frambjóðendur á framboðslista vegna alþingiskosninga næsta vor.
Eins og kunnugt er hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gefið kost á sér í forystusætið í kjördæminu eftir að Árni Mathiesen flutti sig yfir í Suðurkjördæmi. Þá sækist Bjarni Benediktsson eftir öðru sætinu. Búist er við að bæði Sigríður Anna Þórðardóttir og Sigurrós Þorgrímsdóttir sækist eftir áframhaldandi setu á þingi og þá hafa Ragnheiður Elín Árnadóttir og Bryndís Haraldsdóttir boðið sig fram í fjórða sæti listans.