Íslenskur verkfræðinemi úr Háskóla Íslands, Andri Heiðar Kristinsson, bar ásamt hópi verkfræðinema sigur úr bítum hönnunarkeppni sem fram fór í Barcelona í síðustu viku. Keppnin var haldin af evrópsku stúdentasamtökunum BEST (Board of European Students of Technology) og standa samtökin fyrir nokkrum slíkum keppnum á ári hverju.
Það voru hátt í tvö hundruð nemendur frá tæplega þrjátíu löndum í Evrópu sem sóttu um að taka þátt í keppninni. Tuttugu nemendur fengu að taka þátt og var Andri einn þeirra.
Keppnin var í tveimur hlutum. Í öðrum átti að leysa raunveruleg vandamál alþjóðlegra fyrirtækja en í hinum tæknilega þraut með með þröngum skorðum á efnivið og tíma. Í tæknilega hlutanum þurftu nemendur að smíða vélmenni sem gat án hjálpar ratað út úr völundarhúsi.
Sigurlið Andra var skipað verkfræðinemum frá Ungverjalandi, Makedóníu og Tékklandi.