Breska knattspyrnusambandið hefur lýst yfir óánægju sinni með breska sjónvarpið í kjölfar þess að sambandinu hafa enn ekki borist gögn frá sjónvarpinu svo hægt sé að fara á fullu í að rannsaka ásakanir á hendur stjórum og leikmönnum sem fram komu í þættinum Panorama á dögunum.
Knattspyrnusambandið fór strax að loknum þættinum fram á að fá send gögn tengd þættinum eftir að hann fór í loftið, svo hægt væri að hefja rannsókn á málinu, sem valdið hefur miklu fjaðrafoki á Englandi - þó sumir vilji meina að það sé aðeins stormur í vatnsglasi. Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa einnig farið þess á leit við breska sjónvarpið að fá gögn í málinu vegna sinnar eigin rannsóknar.