Chris Coleman, stjóri Fulham, átti fá svör við stóru tapi sinna manna fyrir Manchester United á Old Trafford í dag og sagði að heimamenn hefðu einfaldlega valtað yfir sitt lið.
"Varnarvinna okkar var skelfileg í byrjun leiks og ekki bara aftasta vörnin heldur hjálparvinna miðjumannanna líka. Þegar maður lendir svona undir gegn United á útvelli er leikurinn einfaldlega tapaður og þeir völtuðu sannarlega yfir okkur í dag. Við eigum erfiðan leik gegn Bolton í vikunni og nú þýðir ekkert að velta sér upp úr þessu heldur verðum við að gera okkur klára í að mæta sterku Bolton-liði. Það er mikið eftir af þessu tímabili, en verð þó að segja að ég er feginn að við þurfum ekki að spila við Manchester United í hverri viku," sagði Chris Coleman.