Englandsmeistarar Chelsea hafa fengið tilboð sitt í hollenska landsliðsvarnarmanninn Khalid Boulahrouz hjá HSV í Þýskalandi samþykkt og því á leikmaðurinn aðeins eftir að gangast undir læknisskoðun hjá enska félaginu. Boulahrouz var áberandi með hollenska landsliðinu á HM og er sagður geta spilað allar fjórar varnarstöðurnar.
Boulahrouz er 24 ára gamall og gekk í raðir Hamburg frá hollenska liðinu RKC Waalwijk árið 2004. Hann ber viðurnefnið "Mannætan" sem gefur til kynna harðfylgni hans á knattspyrnuvellinum.