Marcello Lippi ætlar ekki að leggja árar í bát í þjálfunni og hefur látið í veðri vaka að hann muni halda áfram að þjálfa ítalska landsliðið. Lippi er 58 ára og núverandi samningur hans við ítalska knattspyrnusambandið rennur út í næsta mánuði.
"Ég hef aldrei sagt að ég væri að hætta, en ég á fund með knattspyrnusambandinu í vikunni og þar kemur þetta væntanlega í ljós. Það getur vel verið að margir hugsi um að hætta þegar þeir eru komnir um og yfir sextugt, en ég er hvergi nærri hættur," sagði Lippi.