Þýski framherjinn Miroslav Klose segir að fyrir sér sé það miklu mikilvægara að vinna til bronsverðlauna á HM en að vinna gullskóinn fyrir að verða markahæsti leikmaður mótsins. Klose er sem stendur markahæsti leikmaður keppninnar með fimm mörk og hefur náð sér af meiðslum sem hrjáðu hann í síðasta leik.
"Auðvitað yrði fínt að fá einn titil í hús fyrir Þýskaland, en allir sem þekkja mig vita að ég er ekki að velta mér upp úr því hvort ég verð markakóngur eða ekki - fyrir mér skiptir árangur liðsins meira máli," sagði Klose. Jurgen Klinsmann er staðráðinn í að tefla Klose fram í leiknum gegn Portúgal um þriðja sætið á morgun. "Vonandi skorar hann eitt eða tvö mörk og tryggir sér gullskóinn," sagði Klinsmann.