Marcello Lippi, landsliðsþjálfari Ítala, segir að frábær leikur fyrirliðans Zinedine Zidane sé lykillinn að frábærum spretti franska landsliðsins í úrsláttarkeppninni á HM. Frakkarnir voru alls ekki sannfærandi í riðlakeppninni og um tíma leit út fyrir að liðið færi aftur heim með skottið á milli lappanna líkt og á síðasta HM.
"Frakkar hafa sannarlega náð sér betur og betur á strik eftir því sem á keppnina hefur liðið. Zidane hefur verið í ótrúlegu formi og er sennilega besti leikmaður síðustu 20 ára í knattspyrnunni. Frakkarnir verða mjög erfiðir og sigur þeirra á Portúgal sýndi það glögglega," sagði Lippi.