Ítalar eru komnir í úrslitaleikinn á HM eftir dramatískan 2-0 sigur á heimamönnum Þjóðverjum í framlengdum leik í Dortmund í kvöld. Allt stefndi í vítaspyrnukeppni eftir að hvorugu liðinu tókst að skora í venjulegum leiktíma og fyrri hálfleik framlengingar.
Þegar aðeins um tvær mínútur voru eftir af framlengingunni gerðu Ítalar lokaatlögu að marki Þjóðverjanna. Andrea Pirlo átti þá laglega sendingu á bakvörðinn Fabio Grosso, sem sneri knettinum laglega í bláhornið framhjá Jens Lehmann í markinu. Þjóðverjar tjölduðu öllu til að jafna á síðustu augnablikunum, en þá fengu Ítalar skyndisókn og úr henni skoraði gamla kempan Alessandro del Piero glæsilegt mark og tryggði þeim bláu sigurinn.