Breskir fjölmiðlar greina frá því í dag að enski framherjinn Wayne Rooney hafi ætlað að storma inn í búningsherbergi portúgalska landsliðsins eftir leik þjóðanna um helgina, þar sem enskum þótti Ronaldo reyna að hvetja dómarann til að reka félaga sinn hjá Manchester United af velli.
Rooney á að hafa ætlað að lesa félaga sínum Ronaldo hressilega pistilinn, en félagar hans í enska liðinu drógu hann afsíðis og róuðu hann niður. Þess má geta að framherjinn Alan Shearer sem var í HM-stofu breska sjónvarpssins um helgina, sagðist viss um að Rooney léti félaga sinn Ronaldo hafa það óþvegið á fyrstu æfingu hjá Manchester United eftir HM.