Þjóðverjar hafa yfir 2-0 gegn Svíum þegar flautað hefur verið til hálfleiks í viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum á HM. Lukas Podolski skoraði mörk þýska liðsins á 4. og 12. mínútu og til að bæta gráu ofan á svart eru Svíarnir einum leikmanni færri eftir að Teddy Lucic var vikið af leikvelli þegar hann fékk sitt annað gula spjald á 35. mínútu.
Þýska liðið hefur ráðið ferðinni algjörlega í leiknum og þó Svíarnir hafi fengið tvö ágæt færi eftir að þeir urðu manni færri, er ekki annað að sjá en að Þjóðverjarnir séu algjörlega í bílstjórasætinu og sæti í 8-liða úrslitunum handan við hornið.