Oliver Neuville tryggði Þjóðverjum dýrmætan 1-0 sigur á Pólverjum í A-riðli í kvöld með marki á annari mínútu í uppbótartíma. Neuville átti góða innkomu af varamannabekknum í leiknum, líkt og David Odonkor, sem lagði markið upp fyrir félaga sinn og fór langt með að tryggja liðinu sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Pólverjar hafa tapað báðum leikjum sínum til þessa og eiga litla von um að komast áfram.
