Sport

Lætur gagnrýnendur heyra það

Michael Schumacher
Michael Schumacher NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum heimsmeistarinn Michael Schumacher heldur stöðugt fram sakleysi sínu eftir atburðina í tímatökunum í Mónakó í gær. Schumacher var færður aftast í rásröðina í dag fyrir vikið, en hann náði engu að síður fimmta sætinu með ótrúlegum akstri.

"Þeir sem halda því fram að ég hafi vísvitandi reynt að hindra Alonso í tímatökunum eru á villigötum. Ég get aðeins beðist afsökunar á að hafa verið fyrir, en ég gerði það ekki viljandi. Ég vissi ekki einu sinni hvar Alonso var staddur í brautinni og var ekki í talstöðvarsambandi, þannig að ég gat alls ekki vitað hver staðan væri fyrir aftan mig.

Ég er vanur að eiga við harða gagnrýni og mun ekki láta þetta hafa áhrif á mig frekar en annað. Það varð smá uppákoma hjá mér þarna þegar ég sneri bílnum og ég vil ekki ræða það mál frekar -enda enginn ástæða til þess," sagði Schumacher og var greinilega nokkuð argur út í þá sem hafa gagnrýnt hann síðasta sólarhring.

"Þeir sem hafa verið að gagnrýna mig hvað harðast hafa verið of miklir kjúklingar til að koma og tala við mig augliti til auglitis. Nokkrir hafa komið og talað við mig og sagt mér sína skoðun og ég virði það fólk, en svona er þetta víst í lífinu - maður á ekki eintóma vini, alveg sama hvort það er í Formúlu eða öðru."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×