Innlent

Segist ekki hafa verið við stýri

Jónas Garðarsson sést hér þegar hann mætti til þingfestingar málsins á sínum tíma.
Jónas Garðarsson sést hér þegar hann mætti til þingfestingar málsins á sínum tíma. MYND/Valli
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, segist ekki hafa verið við stýrið þegar skemmtibátur hans steytti á skeri á Viðeyjarsundi, sem leiddi til dauða karls og konu. Málflutningur hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Tvennt lést í slysinu sem varð aðfaranótt 10. septembers síðast liðins. Jónas Garðarsson sagði við aðalmeðferð málsins í morgun að hann hefði verið við stýri bátsins framan af. Matthildur Harðardóttir hefði síðar tekið við skipstjórn og verið við stýrið þegar báturinn steytti á skerið. Matthildur og sambýlismaður hennar létust í slysinu.

Kona Jónasar kvaðst ekki muna hver var við stýrið þegar slysið varð. Hún hafði sagt við yfirheyrslur hjá lögreglu að Jónas hefði verið við stýri. Hún skýrði breyttan framburð sinn með því að hún hefði orðið fyrir áfalli þegar slysið varð og lítið munað eftir því þegar hún gaf lögreglu skýrslu. Aðalmeðferð heldur áfram fram eftir degi og þá verða meðal annars spiluð símtöl skipverja til Neyðarlínunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×