Heiðar Helguson var heldur betur í eldlínunni í dag þegar lið hans Fulham tapaði fyrir Bolton á útivelli 2-1 í ensku úrvalsdeildinni. Heiðar kom sínum mönnum yfir í leiknum á 22. mínútu leiksins með góðum skalla, en varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiksins. Það var svo Kevin Nolan sem skoraði sigurmark Bolton í síðari hálfleiknum.
Heiðar lét annars mikið að sér kveða í leiknum, átti meðal annars skot í þverslá og þá vildu leikmenn Fulham fá vítaspyrnu þegar þeim þótti brotið á Heiðari inni í teig Bolton, en allt kom fyrir ekki.