Ekið var á hjólreiðamann á fimmtugsaldri í Flatahrauni í Hafnarfirði á miðvikudagsmorgun.
Lögreglan í Hafnarfirði fékk tilkynningu um slysið laust fyrir klukkan átta.
Maðurinn var fluttur á gjörgæsludeild Landspítala –háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Hann hlaut höfuðáverka en er ekki þungt haldinn að sögn svæfingalæknis.
Tildrög slyssins eru ókunn. Lögreglan í Hafnarfirði vinnur að rannsókn málsins og að sögn hennar kann myrkur og töluverð hálka að hafa orsakað slysið.