Karlmanni hafa verið dæmdar 50 þúsund krónur í miskabætur vegna þess að lögreglan á Sauðárkróki hleraði síma hans í desember árið 2004. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Maðurinn var grunaður um að hafa átt aðild að eldsvoða í húsi við Bárustíg á Sauðárkróki hinn 4. desember árið 2004 þar sem einn maður lést. Lögreglan fékk upplýsingar um símtöl úr og í síma mannsins hinn 3. og 4. desember og var sími hans hleraður frá 9. til 22. desember sama ár. Þessar aðgerðir voru heimilaðar með dómsúrskurði. Ekki var gefin út ákæra á hendur manninum.
Maðurinn byggði kröfu sína á því að hann hefði verið beittur þvingunaraðgerðum og að umfjöllun um málið í fjölmiðlum hefði valdið honum andlegum þjáningum. Maðurinn fór fram á hálfa milljón króna í bætur.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að að aðgerðir lögreglu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart manninum en að jafnframt hefði ekki verið sýnt fram á að lögreglumenn hafi átt frumkvæði að umfjöllun fjölmiðla um eldsvoðann. Dómurinn taldi því að greiða ætti manninum 50.000 krónur í miskabætur vegna skerðingar á einkalífi hans.