Karlmaður á fimmtugsaldri fannst látinn úti fyrir Hvammsvík í Hvalfirði aðfaranótt mánudags.
Maðurinn fór í róður á kajak í víkinni rétt eftir hádegi á sunnudag. Þegar ekki hafði spurst til mannsins á sunnudagskvöldið hafði ættingi hans samband við lögreglu sem gerði björgunarsveitum og varðskipi, sem var í mynni Hvalfjarðar, viðvart. Áhöfn varðskipsins fann manninn laust fyrir klukkan tvö um nóttina þar sem hann lá við hliðina á bát sínum úti á sjó.
Tildrög slyssins eru ókunn. Ekki er hægt að greina frá nafni mannsins að svo stöddu.