Tveir jeppar lentu í árekstri á Sandskeiði, til móts við Litlu kaffistofuna í Svínahrauni, um klukkan fimm í gær. Tveir menn voru í jeppunum.
Lögreglan í Kópavogi fékk tilkynningu um áreksturinn klukkan rúmlega fimm í gær og kallaði á tvo sjúkrabíla sem fluttu mennina á slysadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Að sögn læknis á vakt voru meiðsli mannanna ekki alvarleg og voru þeir útskrifaðir af spítalanum í gærkvöldi.
Jepparnir eru mikið skemmdir eftir áreksturinn að sögn lögreglunnar í Kópavogi.