Hugmyndir eru nú uppi um að byggja sextíu herbergja hótel á Garðavelli á Akranesi. Í erindi þriggja meðlima Golfklúbbsins Leynis til bæjaryfirvalda kemur fram að klúbburinn myndi hafa aðstöðu á neðstu hæðinni.
Segja bréfritarar að hótel á Garðavelli myndi efla golfklúbbinn enn frekar ásamt því að boðið yrði upp á glæsilegt gistirými, ráðstefnusali og veitingastað fyrir jafnt golfara sem almenning. Heimir Fannar Gunnlaugsson, formaður Leynis, segir stjórn félagsins vilja skoða hugmyndina. Endanleg ákvörðun verði síðan í höndum almenns félagsfundar.