Innan við eitt prósent greiddist upp í samanlagðar kröfur í þrotabú Kristjáns Ra. Kristjánssonar og Árna Þórs Vigfússonar samkvæmt auglýstum skiptalokum í Lögbirtingablaðinu 15. þessa mánaðar. Báðir voru Árni Þór og Kristján Ragnar dæmdir í einu umfangsmesta og umtalaðasta fjársvikamáli landsins, Landssímamálinu svokallaða.
Heldur meira var til í búi Kristjáns Ragnars, tæpar 2,7 milljónir króna upp í tæplega 97,2 milljóna króna kröfu, eða 2,74 prósent. Í búi Árna Þórs voru til rétt rúmar 1,4 milljónir króna upp í kröfur sem námu tæpum 443 milljónum króna, eða 0,32 prósent.
Samtals námu kröfur í bú Árna Þórs og Kristjáns Ragnar rétt tæpum 540 milljónum króna. Báðir urðu þeir fyrir kostnaði vegna dóma fyrir hylmingu í fjársvikamáli Símans og skattsvikamálum í fyrirtækjum sem þeir tengdust. Þannig var Árni Þór í síðasta mánuði dæmdur í Hæstarétti til að greiða 2,8 milljónir króna í sekt vegna skattabrota, en Kristján Ragnar var dæmdur til greiðslu 18,5 milljóna króna. Há krafa í þrotabú þeirra skýrist því, að sögn Ingimars Ingimarssonar skiptastjóra bús Árna Þórs, af bótakröfu Símans vegna brota þeirra gegn fyrirtækinu. Bótakröfum Símans hafði verði vísað frá dómi.