Íbúar í Túnunum í Reykjavík eru afar ósáttir við fyrirhugaða háhýsabyggð á svokölluðum Höfðatorgsreit.
Í bréfi frá stjórn Íbúasamtaka Laugardals sem sent er fyrir hönd íbúa í Túnunum og Ásholti eru gagnrýnd fjölmörg atriði við skipulagningu Höfðatorgsreitsins og framsetningu kynningarefnis vegna framkvæmdarinnar. Reisa á nokkrar afar háar íbúðablokkir, þær tvær hæstu nítján og sextán hæðir. Nítján hæða blokkin slagar hátt upp í Hallgrímskirkjuturn.
Sérstaklega gagnrýna íbúarnir að frá háhýsunum muni stafa mikill skuggi sem leggist yfir hús þeirra þegar sól hallar til vesturs, jafnvel um hásumar:
„Þetta kemur til með að hafa mikil áhrif á Íverðmæti eignanna og fara þeir fram á bætur frá borginni ef af verður,“ segir í bréfi íbúasamtakanna.
Þá hafa íbúarnir einnig áhyggjur af vindhviðum sem kunni að skapast í kring um háhýsin. Þeir eru einnig hreinlega uggandi um framtíð sinna eigin húsa. „Á hverfið kannski að verða næsta byggingarsvæði?“ spyrja þeir.
Í gær sendu íbúarnir inn mótmæli á fund skipulagsráðs Reykjavíkur. Eru þeir meðal annars ósáttir við að til standi að breyta deiliskipulagi að kröfu verktakafyrirtækisins Eyktar þannig að byggingarmagn á Höfðatorgsreitnum verði tvöfaldað. „Það flögrar að okkur sú hugsun að einhver sé að gera Eyktinni greiða.“