Nú bíða í kringum 30 manns eftir viðeigandi búsetuúrræði fyrir fatlaða á Suðurlandi. Sighvatur Blöndahl, formaður Þroskahjálpar á Suðurlandi, segir þennan hóp fara stækkandi vegna fólksfjölgunar á svæðinu.
Sighvatur áætlar að það muni kosta á bilinu 100–200 milljónir að uppfylla búsetuþörf þessa hóps. „Það má í raun skipta þörfinni eftir búsetuúrræði í þrennt. Um tíu manns bíða eftir húsnæði með þjónustu allan sólarhringinn. Aðrir tíu þarfnast þjónustu hluta úr degi og aðrir tíu bíða eftir sjálfstæðri búsetu. Það er engin uppbygging fyrirhuguð í augnablikinu á svæðinu fyrir þennan hóp fólks þrátt fyrir brýna þörf.“
Sighvatur segir að nú standi yfir flutningur búsetuúrræðis frá Selfossi til Hveragerðis en það þýði ekki aukningu á plássum og að ekki sé fyrirhugað að nota núverandi húsnæði áfram undir þessa þjónustu.
„Það er fólk alls staðar úr fjórðungnum sem bíður eftir búsetuúrræðum og í flestum tilfellum býr þetta fólk hjá ættingjum og er í mikilli þörf fyrir viðeigandi úrræði. Við hjá Þroskahjálp viljum einnig að búseta dreifist sem víðast um Suðurland þannig að fólk fái tækifæri til að búa í sinni heimabyggð og sem næst sínum nánustu.“