Gert er ráð fyrir því að hreinsun Íslendinga á varnarsvæðunum muni kosta samtals um tvo milljarða króna, eins og kom fram þegar samkomulag Bandaríkjamanna og Íslendinga var kynnt nýlega. Innan utanríkisráðuneytisins er, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, talið að hreinsun á gamla ruslahaugnum muni kosta mest eða hátt í einn milljarð króna.
Fréttablaðið óskaði nýlega eftir upplýsingum um áætlaða kostnaðarskiptingu frá utanríkisráðuneytinu sem og upplýsingum um það hvers konar hreinsun væri ráðgerð og hvenær.
Í svari ráðuneytisins segir að um grófar kostnaðaráætlanir sé að ræða. Stofnað verði hlutafélag í eigu ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu fyrrverandi varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli, sem meðal annars muni bera ábyrgð á hreinsun svæðisins.
Að öðru leyti vill ráðuneytið ekki gefa upplýsingar um kostnaðarskiptinguna.