Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, leggur til að Alþingi samþykki þegar í stað lagabreytingu sem komi í veg fyrir samruna Mjólkursamsölunnar (MS), Norðurmjólkur og Osta- og smjörsölunnar. Gísli segir ljóst að slík einokun myndi draga svo úr samkeppni í mjólkuriðnaði að hagsmunum neytenda yrði stefnt í hættu.
„Með því að afnema undanþágu búvörulaga frá samkeppnislögum sem heimilar samruna afurðastöðva í mjólkuriðnaði má afstýra yfirvofandi einokun í mjólkuriðnaði.“
Gísli segir að þessi sömu lög hafi gert samkeppnisyfirvöldum ókleift að bregðast við þegar Mjólkursamsalan í Reykjavík og Mjólkurbú Flóamanna sameinuðust.
„Ég tel þörf á aukinni samkeppni á þessum markaði þvert ofan í það sem nú er fyrirætlað.
Yfirvofandi samruni felur í sér hættu á óafturkræfum breytingum sem eru til þess fallnar að leiða til mjög skaðlegra afleiðinga fyrir neytendur og því tel ég eðlilegt að bregðast við með því að leggja til breytingar á lögum.“
Gísli segir að neytendur geta ekki treyst því að ávinningur af hagræðingu fyrirtækja með einokunarstöðu renni til þeirra og vitnar í reynslurök sögunnar því til staðfestingar. „ Þá getur verið erfitt að bæta hag neytenda eftir að einokunarstaða kemst á.“