Lönguhlíðin hefur verið þrengd til að bæta öryggi barna í hverfinu. Akreinum hefur verið fækkað í eina hvoru megin í Lönguhlíðinni og hjólreiðastígar gerðir.
Hjólreiðastígarnir eru nýjung í borgarkerfinu og gerðir að hugmynd stjórnmálamanna. Stígarnir ná frá hringtorginu við Hamrahlíð að gatnamótunum á Miklubraut. Hinum megin við gatnamótin eiga hjólreiðamennirnir svo að fara upp á gangstígana og hjóla þar.
Höskuldur Tryggvason, deildarstjóri á framkvæmdasviði borgarinnar, segir að þess misskilnings hafi gætt að á svæðinu milli gangstígs og akreinar séu bílastæði en það sé rangt.
Það hafa verið brögð að því að menn leggi á þessu svæði en þetta eru ekki bílastæði. Það eru innkeyrslur úr götunni inn á lóðirnar frá götunni og þess vegna var ekki hægt að loka hjólreiðastígana meira af. Við eigum eftir að setja upp reiðhjólamerkingar.
Heildarkostnaður við framkvæmdirnar í götunni nema rúmum 40 milljónum króna.