Engin slys urðu á fólki er eldur braust út í íbúðarhúsi á bænum Búlandi skammt frá Hjalteyri í Eyjafirði í gær. Fjölskyldan í húsinu vaknaði upp við hljóð í reykskynjara og tókst að koma sér út úr húsinu og varð ekki meint af.
Lögreglan á Akureyri fékk tilkynningu um brunann rétt fyrir sjö í gærmorgun og var allt tiltækt slökkvilið kallað út. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en mikill reykur var í húsinu og skemmdist það töluvert.
Lögreglan á Akureyri er enn að rannsaka eldsupptök.