Fótbolti

Saknar Larsons

Félagar. Puyol og Larson fögnuðu sigri í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.
Félagar. Puyol og Larson fögnuðu sigri í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð.

Carlos Puyol, fyrirliði Barcelona og samherji Eiðs Smára Guðjohnsen, kveðst sakna sænska framherjans Henrik Larsson, sem yfirgaf herbúðir félagsins í sumar og gekk til liðs við Helsingborg í heimalandi sínu.

Larsson stóð sig mjög vel á tíma sínum á Spáni þar sem hann gegndi svipuðu hlutverki og Eiður Smári gerir nú - sem fjórði sóknarmaður liðsins og svokallaður „super-sub.“

„Ég sendi honum kannski sms-skilaboð og segi honum frá því sjálfur,“ gantaðist Puyol við sænska fréttamenn í gær en sem kunnugt er áttust Spánn og Svíþjóð við í undankeppni EM í fyrradag.

„Larsson er frábær leikmaður og góður félagi utanvallar. Við leikmennirnir skiljum ekki af hverju hann þurfti að flýta sér svona heim,“ hélt Puyol áfram að grínast.

„En í sannleika sagt þá söknum við hans mikið og ég held að allir hefðu viljað hafa hann áfram hjá Barcelona,“ sagði Puyol en Eiður Smári hefur einmitt oft verið nefndur arftaki Larsson hjá spænska stórveldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×