Steve McClaren, þjálfari enska landsliðsins, sagðist í viðtali við breska ríkisútvarpið í gær ekki útiloka það að kalla David Beckham aftur í liðið í framtíðinni. „Það er ekki í verkahring þjálfarans að binda enda á landsliðsferil leikmanna. David segist enn hafa löngun til að spila fyrir England og ég virði það. Aldrei að segja aldrei,“ sagði McClaren.
Beckham lét fyrirliðabandið af hendi eftir heimsmeistaramótið í sumar en stefndi á að halda áfram að spila fyrir landsliðið. Öllum að óvörum valdi McClaren ekki Beckham í fyrsta landsliðshóp sinn fyrir vináttulandsleik gegn Grikklandi á miðvikudag.