Aston Villa hefur fundið nýjan knattspyrnustjóra en það er Martin O'Neill sem hefur ekki verið viðriðinn fótboltann undanfarið ár. Hann hætti með skoska liðið Glasgow Celtic þar sem eiginkona hans, Geraldine, átti við alvarleg veikindi að stríða. Hún er hins vegar á skjótum batavegi og mun O'Neill halda með aSton Villa í æfingaferð til Þýskalands og Hollands um helgina að því er BBC hermir.
O'Neill hóf sinn feril hjá Shepshed Charterhouse áður en hann fór til Grantham, svo fór hann til Wycombe og loks til Leicester. Hann náði frábærum árangri með Leicester og endaði liðið fjórum sinnum í efri helmingi úrvalsdeildarinnar undir hans stjórn. Þá vann hann deildabikarinn tvívegis með liðinu.