Innlent

Kínverska parið fékk dóm í dag

Grunur leikur á að karlmaður frá Filippseyjum hafi stundað að smygla fólki til Bandaríkjanna með viðkomu hér á landi. Kínverskt par var gripið með manninum á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku og dæmt til fangelsisvistar í dag. Fólkið hafði dvalið hér á landi í tvo daga og var á leið til San Fransisco með flugi Icelandair þegar það var gómað á Keflavíkurflugvelli. Um var að ræða kínverskt par sem undanfarin sex ár hefur búið í Þýskalandi og filippseyskan karlmann. Parið naut stöðu flóttamanna í Þýskalandi en taldi að breyta ætti þeirri stöðu og senda þau til Kína. Gripu þau til þess ráðs að reyna að smygla sér til Bandaríkjanna í gegnum Ísland. Þegar þau voru gripin voru þau með japönsk vegabréf sem tilheyrðu þeim ekki, en ekki er vitað hvort að þau voru fölsuð eður ei. Kínverska parið var í dag dæmt í fjörutíu og fimm daga fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness og verður fólkinu að afplánun lokinni vísað úr landi, líkast til til Þýskalands. Konan sagðist í stuttu samtali við fréttamann gera ráð fyrir því að fá að dveljast þar áfram, en henni var greinilega mjög brugðið. Þriðji maðurinn í málinu situr hins vegar enn í gæsluvarðhaldi. Umfang rannsóknar á hans þætti málsins hefur aukist nokkuð þar sem grunur leikur á að hann hafi leikið þennan leik áður, þ.e.a.s. smyglað fólki í gegnum Ísland.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×