Um ljóskur og réttvísi 5. júlí 2005 00:01 Samtök atvinnulífsins og aðrir málsmetandi í þjóðfélaginu eru alltaf að segja okkur, þessum elskum, að jafnrétti ríki á vinnumarkaði. Launamunurinn sem er einhvers staðar á bilinu 15 -30 % eftir því hvar og hvernig er mælt, er eðlilegur vegna þess að karlar eru í betri störfum, vinna lengur, fá. fleiri bitlinga og þar fram eftir götunum. Kemur kynferði ekkert við, segja málsmetandi. Við, þessar elskur, reynum að andæfa. Við höfum jafn góða menntun, við erum til taks, okkur er bara ekki boðið til leiks. Byrjar þetta nú einu sinni enn, hugsa einhverjir. Eru kerlingar ekki nýbúnar að koma að formanni í öðrum stóra stjórnmálaflokknum ? Eru konur ekki í öllum stjórnunarstöðum hjá borginni, þar sem sú, sem nú er formaður, réð ríkjum ? Er ekki búið að búa svo um hnútana að hæfileikaríkur karlpeningur undir fertugu, og jafnvel eldri, á sér ekki viðreisnar von af því að allt gengur út á konur ? Þetta segja sumir. Því miður er ekkert til í þessu. Karlremban ræður ríkjum! Hún birtist á margvíslegan hátt, stundum halda menn að þeir séu skemmtilegir (hlægilegir, fyndnir), stundum er karlremban lævís, stundum yfirþyrmandi og óþolandi. Hún birtist í sjónvarpinu á fimmtudaginn var í einhverju sem átti líklega að vera góðlátlegt grín. Ríkisfréttastofan kynnti gesti Kastljóssins sem "tvær ljóskur". Gestirnir voru viðskiptaráðherrann og formaður eins stjórnmálaflokkanna í okkar ágæta landi, sem auðvitað skiptir ekki máli, því svona á ekki að kynna neina konu fremur en karla sem feitabollur eða bullukolla. Við sem fyrtumst við svona gríni erum líklegast álitin, dæmd, skráð sem húmorslausar leiðindaskjóður. Ég lýsi því hér með yfir að ég ætla að vera húmorslaus leiðindaskjóða fram í andlátið - ég vona að ég verði mjög gömul og mjög óþolandi. Ríkissjónvarpið á að biðjast afsökunar - opinberlega - á hallærisbröndurum af þessu tagi. Ekki síst í ljósi þess að ekki er hægt að sýna vanþóknun sína á kímnigáfunni með því að segja fjölmiðlinum upp. En kannski er það einmitt þess vegna sem fréttastofan heldur að nægilegt sé að hún skammist sín í hljóði. Yfir í allt aðra sálma en ekki síður alvarlega. Baugsmönnum svokölluðum var birt ákæra í, að því er mér skilst, 40 liðum nú fyrir helgina. Þetta mál er allt hið einkennilegasta og alvarlegasta. Gamla establísmentið hefur haldið því fram að þessir athafnamenn séu ruplarar og ræningjar og nú hafa þeir verið ákærðir sem slíkir. Rannsóknin hefur tekið óralangan tíma sem bendir til að málið sé mjög umfangsmikið. Þessi langi tími hefur þó einnig leitt til þess að kvittir hafa komið upp um að velta hafi þurft við mörgum steinum til þess að "finna eitthvað" á mennina. Vonandi er það ekki rétt því við verðum að geta treyst því að lögregluyfirvöld leggi ekki fólk í einelti. Margt virðist öðruvísi í þessu máli en oftast gerist. Í sjónvarpsviðtali fyrir helgina lýsti sá er fyrstur kærði því hvernig lögfræðingur hans tók upp símtólið og hringdi í saksóknara fyrir næstum þremur árum síðan og kærði þrjótana fyrir ólöglegt athæfi. Lögreglan brást skjótt við og gerði húsrannsókn. Menn sem hafa svo góða lögfræðinga eru ekki á flæðiskeri staddir. Ekki verður annað en dáðst að réttlætiskennd þessa manns sem að eigin sögn fannst ekki nóg að fá sjálfur bætt það tjón og/eða þau rangindi sem hann hafði orðið fyrir, heldur lagði hann út á braut sem honum hafði verið sagt að yrði löng og erfið til að þjóðin öll nyti góðs af. Við hljótum að þakka honum fyrir að hafa lagt þetta á sig. Málarekstur þessi hvílir eins og mara á borgurunum því hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá hafa vaknað grunsemdir um að ekki sé allt með felldu í honum. Þeim grunsemdum þarf að eyða, ekki vegna pólitíkusanna í landinu heldur vegna okkar, fólksins. Þess vegna liggur mikið við að dómstólarnir afgreiði málið á eins skömmum tíma og nokkur er kostur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Skoðanir Valgerður Bjarnadóttir Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Samtök atvinnulífsins og aðrir málsmetandi í þjóðfélaginu eru alltaf að segja okkur, þessum elskum, að jafnrétti ríki á vinnumarkaði. Launamunurinn sem er einhvers staðar á bilinu 15 -30 % eftir því hvar og hvernig er mælt, er eðlilegur vegna þess að karlar eru í betri störfum, vinna lengur, fá. fleiri bitlinga og þar fram eftir götunum. Kemur kynferði ekkert við, segja málsmetandi. Við, þessar elskur, reynum að andæfa. Við höfum jafn góða menntun, við erum til taks, okkur er bara ekki boðið til leiks. Byrjar þetta nú einu sinni enn, hugsa einhverjir. Eru kerlingar ekki nýbúnar að koma að formanni í öðrum stóra stjórnmálaflokknum ? Eru konur ekki í öllum stjórnunarstöðum hjá borginni, þar sem sú, sem nú er formaður, réð ríkjum ? Er ekki búið að búa svo um hnútana að hæfileikaríkur karlpeningur undir fertugu, og jafnvel eldri, á sér ekki viðreisnar von af því að allt gengur út á konur ? Þetta segja sumir. Því miður er ekkert til í þessu. Karlremban ræður ríkjum! Hún birtist á margvíslegan hátt, stundum halda menn að þeir séu skemmtilegir (hlægilegir, fyndnir), stundum er karlremban lævís, stundum yfirþyrmandi og óþolandi. Hún birtist í sjónvarpinu á fimmtudaginn var í einhverju sem átti líklega að vera góðlátlegt grín. Ríkisfréttastofan kynnti gesti Kastljóssins sem "tvær ljóskur". Gestirnir voru viðskiptaráðherrann og formaður eins stjórnmálaflokkanna í okkar ágæta landi, sem auðvitað skiptir ekki máli, því svona á ekki að kynna neina konu fremur en karla sem feitabollur eða bullukolla. Við sem fyrtumst við svona gríni erum líklegast álitin, dæmd, skráð sem húmorslausar leiðindaskjóður. Ég lýsi því hér með yfir að ég ætla að vera húmorslaus leiðindaskjóða fram í andlátið - ég vona að ég verði mjög gömul og mjög óþolandi. Ríkissjónvarpið á að biðjast afsökunar - opinberlega - á hallærisbröndurum af þessu tagi. Ekki síst í ljósi þess að ekki er hægt að sýna vanþóknun sína á kímnigáfunni með því að segja fjölmiðlinum upp. En kannski er það einmitt þess vegna sem fréttastofan heldur að nægilegt sé að hún skammist sín í hljóði. Yfir í allt aðra sálma en ekki síður alvarlega. Baugsmönnum svokölluðum var birt ákæra í, að því er mér skilst, 40 liðum nú fyrir helgina. Þetta mál er allt hið einkennilegasta og alvarlegasta. Gamla establísmentið hefur haldið því fram að þessir athafnamenn séu ruplarar og ræningjar og nú hafa þeir verið ákærðir sem slíkir. Rannsóknin hefur tekið óralangan tíma sem bendir til að málið sé mjög umfangsmikið. Þessi langi tími hefur þó einnig leitt til þess að kvittir hafa komið upp um að velta hafi þurft við mörgum steinum til þess að "finna eitthvað" á mennina. Vonandi er það ekki rétt því við verðum að geta treyst því að lögregluyfirvöld leggi ekki fólk í einelti. Margt virðist öðruvísi í þessu máli en oftast gerist. Í sjónvarpsviðtali fyrir helgina lýsti sá er fyrstur kærði því hvernig lögfræðingur hans tók upp símtólið og hringdi í saksóknara fyrir næstum þremur árum síðan og kærði þrjótana fyrir ólöglegt athæfi. Lögreglan brást skjótt við og gerði húsrannsókn. Menn sem hafa svo góða lögfræðinga eru ekki á flæðiskeri staddir. Ekki verður annað en dáðst að réttlætiskennd þessa manns sem að eigin sögn fannst ekki nóg að fá sjálfur bætt það tjón og/eða þau rangindi sem hann hafði orðið fyrir, heldur lagði hann út á braut sem honum hafði verið sagt að yrði löng og erfið til að þjóðin öll nyti góðs af. Við hljótum að þakka honum fyrir að hafa lagt þetta á sig. Málarekstur þessi hvílir eins og mara á borgurunum því hvort sem mönnum líkar betur eða verr þá hafa vaknað grunsemdir um að ekki sé allt með felldu í honum. Þeim grunsemdum þarf að eyða, ekki vegna pólitíkusanna í landinu heldur vegna okkar, fólksins. Þess vegna liggur mikið við að dómstólarnir afgreiði málið á eins skömmum tíma og nokkur er kostur.