Tímaskekkja 23. apríl 2005 00:01 Frumvarp það um ríkisútvarpið, sem menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur nýlega lagt fram á alþingi, er ótrúleg tímaskekkja. Ríkisútvarpið hafði haft einkarétt á ljósvakamiðlun allt frá stofnun þess 1930. Þegar útvarpsrekstur var gefinn frjáls með lögum frá alþingi 1985 var gert ráð fyrir að endurskoðun á lögum um ríkisútvarpið færi fram ekki síðar en þremur árum seinna, eða 1988. Það eru því komin 17 ár fram yfir þann tíma, sem þá var ætlaður til endurskoðunar laga um rekstur ríkisútvarpsins. Það er því vissulega tími til kominn að endurskoða hlutverk ríkisútvarps á frjálsum fjölmiðlamarkaði. Hins vegar vill svo til, að sú nefnd, sem skipuð var í upphafi þings, eftir hrakfarir fjölmiðlafrumvarps forsætisráðherra síðastliðið sumar, hefur nú skilað áliti, það álit er komið til meðferðar þingsins, og ráð fyrir því gert að frumvarp byggt á niðurstöðum þess verði lagt fyrir þingið að hausti. Það er því eðlilegt og rökrétt að afgreiðslu þessa frumvarps verði frestað til haustsins og þingið ræði lagasetningu um fjölmiðlamarkaðinn sem heild, en ekki í bútum. Raunar er ríkisútvarpið svo snar þáttur í fjölmiðlaneti landsmanna, að það væri beinlínis óeðlilegt að ræða það ekki sem hluta af því, og jafnóeðlilegt að alþingi ræði ekki fjölmiðlamarkaðinn í heild sinni og setji um hann lög. Eftir 17 ára vanrækslu á því að endurskoða lög um ríkisútvarp, getur varla skipt sköpum, þótt það frestist enn um nokkra mánuði. Það hefur lengi verið vitað, að aðildarflokkar ríkisstjórnarinnar hafa ólíkar skoðanir á útvarpsrekstri ríkisins. Framsóknarflokkurinn hefur helst viljað halda honum í sem næst óbreyttu formi. Innan Sjálfstæðisflokksins hafa hins vegar verið skiptar skoðanir. Hávær hópur manna hefur aðhyllst þá skoðun, að forsendur séu brostnar fyrir almennum afnotagjöldum, eftir að einokunaraðstaða ríkisútvarpsins hefur verið afnumin. Stór hópur hefur einnig dregið í efa að rás 2 sé rekin í harðri samkeppni við einkamiðla og krafist þess að hún verði "seld" eða hreinlega lögð niður. Einnig hafa komið fram raddir meðal sjálfstæðismanna um að tími sé kominn til að háeffa ríkisútvarpið, jafnvel með það fyrir augum að einkavæða það síðar. Þetta síðasttalda er þó eitur í beinum framsóknarmanna. Því hafa flokkarnir nú sæst á að esseffa það! Gera það að sameignarfélagi, þótt enginn sé meðeigandinn, menntamálaráðherra skal fara með eignarhlutinn og tilnefna fimm menn í stjórn þess, sem alþingi hefur þegar kosið, á aðalfundi sem haldinn skal í lok maímánaðar ár hvert. Þessi stjórn á ekki að hafa afskipti af dagskrárstefnu eða mannaráðningum, öðrum en ráðningu útvarpsstjóra, sem þannig verður ráðinn af pólitískum meirihluta framvegis sem hingað til. Með þessu verða starfsmennirnir ekki lengur ríkisstarfsmenn, og fyrirtækinu er ætlað að starfa með líkum hætti og keppinautarnir á markaðnum. Vissulega þarfnast þessi tilhögun ítarlegrar umræðu og því ekki rétt að hespa afgreiðslu frumvarpsins af í vor. Gert er ráð fyrir að afnotagjöldin verði afnumin en í þeirra stað komi nefskattur, sem innheimtur verði með sama hætti og önnur opinber gjöld. Við þetta á að sparast 80 milljóna króna innheimtukostnaður afnotagjaldanna og á sú upphæð því að bætast við tekjur útvarpsins. Að öðru leyti er stefnt að því að breyttir tekjustofnar gefi sama eða svipað af sér og núverandi fyrirkomulag. Ákafar umræður um þetta hafa farið fram í mörgum löndum, t.d. núna síðast í Bretlandi í sambandi við framlengingu útvarpsleyfis BBC um 10 ár í viðbót. Þar komust menn að þeirri niðurstöðu að afnotagjöldin væru þrátt fyrir allt sanngjarnasta aðferðin til að halda úti þjóðarútvarpi - menn greiði fyrir það að ríkið hefur byggt upp dreifikerfi, sem nær til allra, hvort sem menn svo kjósa að nýta sér það eða ekki. Yfir 20 lönd innheimta afnotagjöld og í meirihluta þeirra eru þau aðaltekjustofn ríkisútvarps. Sum þessara landa leyfa auglýsingar að vissu marki í ríkisfjölmiðlum, en í öðrum eru engar auglýsingar leyfðar. Það sem er þó aðalgallinn við frumvarp menntamálaráðherra, að þar er menningarhlutverk ríkisútvarpsins hvergi skilgreint, hvað þá að gerð sé kostnaðaráætlun um hvað það megi kosta að rækja það. Er það ásættanlegt að íslenskt dagskrárefni sjónvarps ríkisins verði fátæklegra með hverju árinu samtímis því sem það er í harðri samkeppni við einkamiðla um kaup og flutning á erlendu afþreyingarefni? Er rétt að íslenskur ríkismiðill heyi harða samkeppni við einkastöðvar um auglýsingar? Það sem einkum réttlætir það að ríkið standi áfram í fjölmiðlarekstri á ljósvakanum, eftir að einkaleyfi þess hefur verið afnumið, er það að öflugt ríkisútvarp er driffjöður fyrir öflugt og vandað útvarp á vegum annarra, kemur af stað ákveðinni gæðahringrás. Til þess þarf það þó að vera fjárhagslega öflugt og geta skipulagt dagskrárefni sitt mörg ár fram í tímann, ekki einungis með framleiðslu eigin efnis heldur með samningum við sjálfstæða framleiðendur eða kaupum á efni þeirra. Þetta er stærra mál en svo að skynsamlegt geti talist að hespa því af á nokkrum síðustu dögum þingsins. Því er best að það bíði haustsins og alþingi afgreiði þá lög, sem ná yfir fjölmiðlamarkaðinn í heild. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Mest lesið Gerviverkalýðsfélagið Efling Aðalgeir Ásvaldsson Skoðun Réttindagæsla fatlaðs fólks á valdi þekkingarleysis Jón Þorsteinn Sigurðsson Skoðun Þú mátt nauðga ef einhver karl á internetinu leyfir þér það Guðný S. Bjarnadóttir Skoðun Skiptir stærðin máli? Litháenskir sérfræðingar á Íslandi: Eining og samstarf Inga Minelgaite Skoðun Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Þar lágu Danir í því: Stórveldi eiga hagsmuni, ekki vini? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Áhugamönnum um hagræðingu fjölgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Lýðræðið í hættu – stjórnmálaflokkar án lýðræðislegrar uppbyggingar Svanur Guðmundsson Skoðun Gagnlegar símarettur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Pólitíkin þá og nú Ingibjörg Kristín Ingólfsdóttir Skoðun
Frumvarp það um ríkisútvarpið, sem menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur nýlega lagt fram á alþingi, er ótrúleg tímaskekkja. Ríkisútvarpið hafði haft einkarétt á ljósvakamiðlun allt frá stofnun þess 1930. Þegar útvarpsrekstur var gefinn frjáls með lögum frá alþingi 1985 var gert ráð fyrir að endurskoðun á lögum um ríkisútvarpið færi fram ekki síðar en þremur árum seinna, eða 1988. Það eru því komin 17 ár fram yfir þann tíma, sem þá var ætlaður til endurskoðunar laga um rekstur ríkisútvarpsins. Það er því vissulega tími til kominn að endurskoða hlutverk ríkisútvarps á frjálsum fjölmiðlamarkaði. Hins vegar vill svo til, að sú nefnd, sem skipuð var í upphafi þings, eftir hrakfarir fjölmiðlafrumvarps forsætisráðherra síðastliðið sumar, hefur nú skilað áliti, það álit er komið til meðferðar þingsins, og ráð fyrir því gert að frumvarp byggt á niðurstöðum þess verði lagt fyrir þingið að hausti. Það er því eðlilegt og rökrétt að afgreiðslu þessa frumvarps verði frestað til haustsins og þingið ræði lagasetningu um fjölmiðlamarkaðinn sem heild, en ekki í bútum. Raunar er ríkisútvarpið svo snar þáttur í fjölmiðlaneti landsmanna, að það væri beinlínis óeðlilegt að ræða það ekki sem hluta af því, og jafnóeðlilegt að alþingi ræði ekki fjölmiðlamarkaðinn í heild sinni og setji um hann lög. Eftir 17 ára vanrækslu á því að endurskoða lög um ríkisútvarp, getur varla skipt sköpum, þótt það frestist enn um nokkra mánuði. Það hefur lengi verið vitað, að aðildarflokkar ríkisstjórnarinnar hafa ólíkar skoðanir á útvarpsrekstri ríkisins. Framsóknarflokkurinn hefur helst viljað halda honum í sem næst óbreyttu formi. Innan Sjálfstæðisflokksins hafa hins vegar verið skiptar skoðanir. Hávær hópur manna hefur aðhyllst þá skoðun, að forsendur séu brostnar fyrir almennum afnotagjöldum, eftir að einokunaraðstaða ríkisútvarpsins hefur verið afnumin. Stór hópur hefur einnig dregið í efa að rás 2 sé rekin í harðri samkeppni við einkamiðla og krafist þess að hún verði "seld" eða hreinlega lögð niður. Einnig hafa komið fram raddir meðal sjálfstæðismanna um að tími sé kominn til að háeffa ríkisútvarpið, jafnvel með það fyrir augum að einkavæða það síðar. Þetta síðasttalda er þó eitur í beinum framsóknarmanna. Því hafa flokkarnir nú sæst á að esseffa það! Gera það að sameignarfélagi, þótt enginn sé meðeigandinn, menntamálaráðherra skal fara með eignarhlutinn og tilnefna fimm menn í stjórn þess, sem alþingi hefur þegar kosið, á aðalfundi sem haldinn skal í lok maímánaðar ár hvert. Þessi stjórn á ekki að hafa afskipti af dagskrárstefnu eða mannaráðningum, öðrum en ráðningu útvarpsstjóra, sem þannig verður ráðinn af pólitískum meirihluta framvegis sem hingað til. Með þessu verða starfsmennirnir ekki lengur ríkisstarfsmenn, og fyrirtækinu er ætlað að starfa með líkum hætti og keppinautarnir á markaðnum. Vissulega þarfnast þessi tilhögun ítarlegrar umræðu og því ekki rétt að hespa afgreiðslu frumvarpsins af í vor. Gert er ráð fyrir að afnotagjöldin verði afnumin en í þeirra stað komi nefskattur, sem innheimtur verði með sama hætti og önnur opinber gjöld. Við þetta á að sparast 80 milljóna króna innheimtukostnaður afnotagjaldanna og á sú upphæð því að bætast við tekjur útvarpsins. Að öðru leyti er stefnt að því að breyttir tekjustofnar gefi sama eða svipað af sér og núverandi fyrirkomulag. Ákafar umræður um þetta hafa farið fram í mörgum löndum, t.d. núna síðast í Bretlandi í sambandi við framlengingu útvarpsleyfis BBC um 10 ár í viðbót. Þar komust menn að þeirri niðurstöðu að afnotagjöldin væru þrátt fyrir allt sanngjarnasta aðferðin til að halda úti þjóðarútvarpi - menn greiði fyrir það að ríkið hefur byggt upp dreifikerfi, sem nær til allra, hvort sem menn svo kjósa að nýta sér það eða ekki. Yfir 20 lönd innheimta afnotagjöld og í meirihluta þeirra eru þau aðaltekjustofn ríkisútvarps. Sum þessara landa leyfa auglýsingar að vissu marki í ríkisfjölmiðlum, en í öðrum eru engar auglýsingar leyfðar. Það sem er þó aðalgallinn við frumvarp menntamálaráðherra, að þar er menningarhlutverk ríkisútvarpsins hvergi skilgreint, hvað þá að gerð sé kostnaðaráætlun um hvað það megi kosta að rækja það. Er það ásættanlegt að íslenskt dagskrárefni sjónvarps ríkisins verði fátæklegra með hverju árinu samtímis því sem það er í harðri samkeppni við einkamiðla um kaup og flutning á erlendu afþreyingarefni? Er rétt að íslenskur ríkismiðill heyi harða samkeppni við einkastöðvar um auglýsingar? Það sem einkum réttlætir það að ríkið standi áfram í fjölmiðlarekstri á ljósvakanum, eftir að einkaleyfi þess hefur verið afnumið, er það að öflugt ríkisútvarp er driffjöður fyrir öflugt og vandað útvarp á vegum annarra, kemur af stað ákveðinni gæðahringrás. Til þess þarf það þó að vera fjárhagslega öflugt og geta skipulagt dagskrárefni sitt mörg ár fram í tímann, ekki einungis með framleiðslu eigin efnis heldur með samningum við sjálfstæða framleiðendur eða kaupum á efni þeirra. Þetta er stærra mál en svo að skynsamlegt geti talist að hespa því af á nokkrum síðustu dögum þingsins. Því er best að það bíði haustsins og alþingi afgreiði þá lög, sem ná yfir fjölmiðlamarkaðinn í heild.
Skiptir stærðin máli? Litháenskir sérfræðingar á Íslandi: Eining og samstarf Inga Minelgaite Skoðun
Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun
Skiptir stærðin máli? Litháenskir sérfræðingar á Íslandi: Eining og samstarf Inga Minelgaite Skoðun
Ögurstund í Seyðisfirði: Áskorun til nýrrar ríkisstjórnar Árni Finnsson,Benedikta Guðrún Svavarsdóttir,Elvar Örn Friðriksson,Guðrún Óskarsdóttir,Jón Kaldal,Rakel Hinriksdóttir,Snorri Hallgrímsson,Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun