Sport

ÍR lagði KA

KA-menn sóttu ekki gull í greipar ÍR-inga í Austurbergi í gær, en heimamenn höfðu yfir allan leikinn. Það var fyrst og fremst gríðarlega öflugur varnarleikur ÍR sem skapaði sigurinn og KA-menn máttu sín lítils gegn honum og fengu á sig mikið af hraðaupphlaupum. Sigur heimamanna var öruggari en lokatölurnar gefa til kynna, en leiknum lauk með sigri ÍR, 35-32. Jóhannes Bjarnason, þjálfari KA var hundfúll með leik sinna manna í gær og vildi meina að þeir hefðu ekki náð að gera það sem lagt var upp með fyrir leikinn. "Sóknarleikur okkar var hreinlega afleitur framan af leik, en lagaðist að vísu aðeins í þeim síðari. Það hefur verið okkar akkílesarhæll í undanförnum leikjum að við erum að sækja illa á þessar flötu varnir og erum að sækja of mikið inn á miðjuna þar sem vörnin er hvað þéttust fyrir og í kjölfarið er vörn andstæðinganna að verja mikið af skotum og við að fá á okkur hraðaupplaup í staðinn", sagði Jóhannes. Júlíus Jónasson, þjálfari ÍR var ögn kátari með leik sinna manna í gær. "Ég lagði upp með það við strákana fyrir leikinn að þetta væri 4-6 punkta leikur og því er þetta gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur. Það er ekkert leyndarmál að við byggjum á vörn og hraðaupphlaupum og það skilaði sér í dag", sagði Júlíus.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×