Menning

Hundar á tískusýningu

Úlpur í felulitum, æfingagallar og fleira var meðal þess sem hundar sýndu á tískusýningu í miðborg Reykjavíkur í dag. Íslenskur hönnuður hundafatnaðar hyggur á útflutning. Þeir báru sig fagmannlega hundarnir sem sýndu tískufatnað frá Theo í Iðu í Lækjargötu í dag. Hönnuðurinn, Theódóra Elísabet Smáradóttir, segist hafa unnið við fagið í þrjú ár en síðastliðið eitt ár hafi hún unnið að nýrri línu sem hafi verið að koma á markað. Theódóra segir ákveðna tísku vera í hundafatnaði og hún segir hunda, eins og smáhunda, þurfa á fötum að halda. Ekki af því að þeim sé kalt heldur til þess að verja feldinn því ef farið sé út að ganga með feldhund í snjókomu þurfi að baða hann eftir það. Þess þurfi ekki ef hundurinn sé í galla. Þá segist Theódóra vera að vinna að fatalínu fyrir stærri hunda, en þess má geta að útlfutningur á þessum fatnaði er að hefjast. Hún segir Theo-fólk hafa verið á fundi með dreifingaraðilum í Svíþjóð og hafi gert samning við þá. Þeir sjái 800 búðum fyrir vörum þannig að íslenskur hundatískufatnaður eigi eftir að fara víða. Theódóra segir að hugmyndin sé að byrja í Svíþjóð og taka svo stefnuna á Bretland og þar á eftir Bandaríkjamarkað. En hvað skyldi vera í tísku? Theódóra segir að það sé margt og mikið. Þykkar úlpur með loðhettu og þykkir heilgallar ásamt vindgöllum og -jökkum séu vinsælir núna vegna veðurfarsins en í sumar komi ný fatalína og þar verði léttir bolir bæði með kraga og hettu, smekkbuxur og skotapils ásamt mörgu öðru.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×