Innlent

Sameiningin í uppnámi

Áformaðar kosningar um stórfellda sameiningu sveitarfélaga í apríl eru í uppnámi vegna ósamkomulags ríkis og sveitarfélaga um breytta tekjuskiptingu. Sveitarfélögin krefjast allt að fimm milljarða króna tekjuaukningar. Félagsmálaráðherra boðaði snemma í haust að stór hluti þjóðarinnar myndi ganga að kjörborðinu þann 23. apríl næstkomandi til að kjósa um sameiningu sem myndi fækka sveitarfélögum landsins úr liðlega eitt hundrað niður í um þrjátíu. Endanlegar tillögur um sameiningu átti að kynna í desember. Nú, tveimur mánuðum síðar, hafa þær ekki enn sést. Ástæðan er sú að málið er strand vegna ágreinings ríkis og sveitarfélaga um breytta tekjuskiptingu. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að mikilvægt sé að niðurstaða sé komin í málið áður en gengið verður til kosninga. Félagið geti þó vissulega ekki komið í veg fyrir kosningarnar. Þegar hann er spurður um kröfu sveitarfélaganna rifjar hann upp hvað þau fengu þegar samið var síðast, fyrir fimm árum. Það voru fimm milljarðar en Vilhjálmur viðurkennir að gjá sé á milli aðila og verkefnið sé erfitt. Ljóst er að samkomulag þarf að nást fljótt ef takast á að kjósa í apríl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×