Innlent

Húsin keypt vegna snjóflóðahættu

Ofanflóðasjóður og Ísafjarðarbær voru búnir að ákveða að kaupa upp raðhúsin og blokkina sem snjóflóð féll á í Hnífsdal í gær vegna snjóflóðahættu.  Fyrir tíu árum var ákveðið að kaupa öll íbúarhús í Tunguhverfi og selja þau til brottflutnings, eða sem sumarhús, vegna flóðahættu þar en síðar kom í ljós að Árvellirnir, þar sem raðhúsin og blokkin standa við, væri líka hættusvæði. Það var á grundvelli þess sem þau hús voru rýmd í fyrrakvöld, áður en flóðið féll í gærmorgun og rann inn í nokkrar íbúðir. Það stefnir því allt í að ekki verði búið í þessum íbúðum í framtíðinni. Hættuástandi var aflýst á Patreksfirði og Tálknafirði í gærkvöldi og fengu um það bil hundrað manns að snúa til síns heima. Hættuástand er enn í Bolungarvík og Almannavarnanefnd á Ísafirði ákvað á fundi sínum í morgun að aflétta banni við umferð um þrjú athafnasvæði í bænum og skólahald verður með eðlilegum hætti. Umferð um hesthúsabyggðina í Hnífsdal verður áfram í samráði við lögreglu. Hættuástand er enn í gildi en staðan verður athuguð á ný þegar birtir til. Næsti fundur nefndarinnar verður síðar í dag. Á Ísafirði og í Bolungarvík hefur verið skaplegt veður í nótt og lítil snjókoma. Samkvæmt sérveðurspá sem gildir til klukkan 18 í kvöld er spáð hægri norðlægri átt með éljagangi. Farið var að bera á vöruskorti í Bolungarvík þar sem ófært var þangað í nokkra daga en vegurinn var ruddur í morgun. Brauð og mjólk voru til dæmis uppseld í verslunum þar. Björgunarskip frá Ísafirði fór í gær með ýmsar nauðsynjavörur til Súðavíkur en þar var fólk búið að vera álíka lengi einangrað og Bolvíkingar þegar vegurinn til Ísafjarðar var ruddur í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×