Innlent

Stopul nettenging við Ísland

Ljósleiðarastrengur. Verktakar í Skotlandi hafa gert mörgum netnotendum lífið leitt á Íslandi með því að grafa í sundur ljósleiðara sem hingað liggur.
Ljósleiðarastrengur. Verktakar í Skotlandi hafa gert mörgum netnotendum lífið leitt á Íslandi með því að grafa í sundur ljósleiðara sem hingað liggur.

"Þessi bilun er eins og svo oft áður hjá samstarfsaðilum okkar í Skotlandi," segir Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Farice. Það fyrirtæki rekur samnefndan sæstreng sem er annar tveggja strengja sem mestöll fjarskipti Íslands fara um. Farice-strengurinn bilaði í gærmorgun skammt hjá bænum Wick í Skotlandi og það hafði þær afleiðingar að allt netsamband hér á landi var mun hægvirkara en ella.

Þetta er í fjórtánda sinn sem strengurinn bilar frá því að hann var tekinn í notkun í janúar 2004. Alltaf hefur bilunin orðið í Skotlandi. "Þetta er einmitt ástæðan fyrir því að við höfum alla okkar miðlara í London," segir Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri fyrir­tækisins CCP sem á og rekur netleikinn EVE online sem 78 þúsund notendur víða um heim spila í gegnum netið.

"Það er í raun algjör synd því svona miðlarar þurfa mikið og öruggt rafmagn og því höfum við oft rætt það að hafa þá hér á landi en alltaf strandar sú umræða á því að hingað liggja aðeins tvær tengingar og oft liggur önnur niðri," segir Hilmar Veigar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×