Innlent

Prentað af netinu án vandkvæða

Norska vafrafyrirtækið Opera Software ASA í Noregi segist hafa komið fram með lausn sem bindur enda á vandræðagang sem fylgt getur því að prenta út vefsíður. Ný tækni fyrirtækisins, sem kallast Extensible Rendering Architecture (ERA), þýðir að ekki þarf lengur að skruna til hliðanna á skjánum eða klippa til útprent, heldur er hægt að prenta án þess að huga að skjá- eða pappírsstærð. Opera hefur áður komið fram með nýja tækni til að teikna upp efni vefsíðna á smáa og miðlungsstóra skjái, auk tækni til að birta vefsíður á sjónvarpsskjám. "Framtíðarsýn Opera er að gera fólki kleift að heimsækja uppáhaldsvefsíður sínar á hvaða tæki sem er og ERA þýðir að notendur geta nýtt sér netið að fullu á hvaða skjá sem er, burtséð frá römmum, breidd, eða töflum vefsíðna," segir Jón S. von Tetzchner, íslenskur forstjóri og annar stofnenda Opera Software. "Með óendanlega möguleika er ERA-tæknin með sanni stóráfangi í framsetningu vefsíðna." eRA-tæknin verður nýtt í næstu útgáfu vafra Opera, númer 7.60, sem væntanlegur er fyrir árslok.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×