Æfur við hæstarétt 4. nóvember 2004 00:01 Þetta gerðist: ríkisstjórnin hafði búið svo um hnútana, að nær allir gengu út frá því sem gefnum hlut, að sakborningurinn yrði fundinn sekur. Honum var gefið að sök að hafa lagt á ráðin um að kála forsetanum - brot, sem hefði leitt til umsvifalausrar dauðarefsingar. Hann hafði verið kvikmyndaður úr launsátri, upptakan var að vísu óskýr og ekki heldur gott að heyra orðaskil, en hann heyrðist samt tala um að "eyða" forsetanum; morðhótun sem sagt. Maðurinn á myndbandinu var dæmdur sekur í undirrétti, og forsetinn og menn hans hugsuðu gott til glóðarinnar. En þá gerðist það, sem enginn átti von á: stjórnarandstöðuleiðtoginn - hann væri forseti núna, hefði Mugabe forseti ekki beitt ofbeldi og öðrum brögðum í kosningunum 2002 - var sýknaður í hæstarétti. Þetta gerðist í Simbabve fyrir fáeinum vikum. Nú voru góð ráð dýr. Forsetinn hellti úr skálum reiði sinnar yfir hæstarétt og skaut á neyðarfundi með samherjum sínum til að fjalla um það, hvernig við þessum óvænta og ósvífna sýknudómi skyldi bregðast. Hann hafði ekki síður en aðrir talið það öldungis víst, að dómararnir í réttinum voguðu sér ekki að dæma gegn vilja hans, enda er hann búinn að sitja á forsetastóli í bráðum aldarfjórðung og fylla réttinn af samherjum sínum, frændum og vinum. En rétturinn brást - forsetanum. Enn sér ekki fyrir endann á atburðarásinni. Hæstiréttur leit svo á, að menn mættu ekki oftúlka sögnina að eyða. Morgan Tsvangíraí, en svo heitir hinn sýknaði, hefði einfaldlega getað verið að tala um að bera sigurorð af forsetanum í komandi kosningum. Robert Mugabe er gamall marxisti. Hann er eins og kunningi minn einn í Harare, höfuðborg Simbabve, lýsti ömmu sinni: hann túlkar ævi sína og umhverfi í ljósi eins atburðar og aðeins eins. Í lífi ömmunnar var það styrjöldin mikla: hún mótaði lífsskoðun hennar í einu og öllu. Heimurinn hafði tiltekna ásýnd fram að 1914, og þá hverfðist hann um möndul sinn og varð aldrei aftur samur. Í lífi Mugabes var það þjóðfrelsisbarátta Simbabvebúa, sem leiddi að lokum til sjálfstæðistökunnar 1980, þegar Mugabe varð forsætisráðherra og var síðar kjörinn forseti. Þessi viðburður hefur smám saman náð slíkum heljartökum á forsetanum, segja heimamenn, að honum er heimurinn að því er virðist óskiljanlegur nema með skírskotun til þessa eina atburðar. Honum finnst enginn geta stjórnað landinu nema hann. Ég hef lýst því áður á þessum stað, hvernig Mugabe forseti hefur lagt landið sitt í rúst eða því sem næst: þetta fallega land, þar sem smjör gæti dropið af hverju strái. Hann hefur lýst stríði á hendur þelhvítum bændum og gert jarðir þeirra upptækar og afhent þær frændum og vinum, sem kunna ekkert til landbúnaðar, svo að akrarnir visna. Fólkið sveltur, og fjórði hver maður er smitaður af eyðniveirunni. Forsetinn er í útlöndum hálft árið með fríðu föruneyti - og myndi, býst ég við, hefði hann bara heflaðri smekk, hafa fullskipaða sinfóníuhljómsveit með í för til að vekja sig á morgnana eins og soldáninn í Óman. Mugabe felldi ástarhug til eiginkonu eins embættismanna sinna og gerði hann þá að sendiherra í Mongólíu og giftist konunni með viðhöfn. Hún klæddist hvítu við athöfnina til að auðkenna nýfallna mjöll - og var þó komin af viðkvæmasta skeiði. Það hefur ekki fengizt upplýst hver kostaði brúðkaup aldarinnar þarna suður frá. Það hefur ekki heldur verið upplýst hvort meintar mútugreiðslur voru inntar af hendi eða ekki. Blaðamenn eru leiddir á næstu lögreglustöð og lúbarðir, ef þeir spyrja slíkra spurninga. Hvers vegna er Mugabe forseta svo mjög í mun að troða frændum og vinum í hæstarétt? Spurningin svarar sér sjálf: ef spillingin í kringum forsetann kemur til kasta dómstólanna, þá ríður á því, að traustir menn sitji í hæstarétti. Þess vegna veldur sýknudómur réttarins yfir stjórnarandstöðuleiðtoganum þungum áhyggjum í herbúðum forsetans og gæti m.a.s. kostað blóðbað. Af þessu ásamt öðru má ráða mikilvægi þess, að hæstiréttur sé hafinn yfir grunsemdir um hlutdrægni. Ef hæstiréttur er vilhallur og hylmir yfir spilltum stjórnvöldum, þá er voðinn vís. Sem minnir mig á Rúmeníu: þar mun vera ódýrara að kaupa sér dómara en að leigja sér lögfræðing. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Þetta gerðist: ríkisstjórnin hafði búið svo um hnútana, að nær allir gengu út frá því sem gefnum hlut, að sakborningurinn yrði fundinn sekur. Honum var gefið að sök að hafa lagt á ráðin um að kála forsetanum - brot, sem hefði leitt til umsvifalausrar dauðarefsingar. Hann hafði verið kvikmyndaður úr launsátri, upptakan var að vísu óskýr og ekki heldur gott að heyra orðaskil, en hann heyrðist samt tala um að "eyða" forsetanum; morðhótun sem sagt. Maðurinn á myndbandinu var dæmdur sekur í undirrétti, og forsetinn og menn hans hugsuðu gott til glóðarinnar. En þá gerðist það, sem enginn átti von á: stjórnarandstöðuleiðtoginn - hann væri forseti núna, hefði Mugabe forseti ekki beitt ofbeldi og öðrum brögðum í kosningunum 2002 - var sýknaður í hæstarétti. Þetta gerðist í Simbabve fyrir fáeinum vikum. Nú voru góð ráð dýr. Forsetinn hellti úr skálum reiði sinnar yfir hæstarétt og skaut á neyðarfundi með samherjum sínum til að fjalla um það, hvernig við þessum óvænta og ósvífna sýknudómi skyldi bregðast. Hann hafði ekki síður en aðrir talið það öldungis víst, að dómararnir í réttinum voguðu sér ekki að dæma gegn vilja hans, enda er hann búinn að sitja á forsetastóli í bráðum aldarfjórðung og fylla réttinn af samherjum sínum, frændum og vinum. En rétturinn brást - forsetanum. Enn sér ekki fyrir endann á atburðarásinni. Hæstiréttur leit svo á, að menn mættu ekki oftúlka sögnina að eyða. Morgan Tsvangíraí, en svo heitir hinn sýknaði, hefði einfaldlega getað verið að tala um að bera sigurorð af forsetanum í komandi kosningum. Robert Mugabe er gamall marxisti. Hann er eins og kunningi minn einn í Harare, höfuðborg Simbabve, lýsti ömmu sinni: hann túlkar ævi sína og umhverfi í ljósi eins atburðar og aðeins eins. Í lífi ömmunnar var það styrjöldin mikla: hún mótaði lífsskoðun hennar í einu og öllu. Heimurinn hafði tiltekna ásýnd fram að 1914, og þá hverfðist hann um möndul sinn og varð aldrei aftur samur. Í lífi Mugabes var það þjóðfrelsisbarátta Simbabvebúa, sem leiddi að lokum til sjálfstæðistökunnar 1980, þegar Mugabe varð forsætisráðherra og var síðar kjörinn forseti. Þessi viðburður hefur smám saman náð slíkum heljartökum á forsetanum, segja heimamenn, að honum er heimurinn að því er virðist óskiljanlegur nema með skírskotun til þessa eina atburðar. Honum finnst enginn geta stjórnað landinu nema hann. Ég hef lýst því áður á þessum stað, hvernig Mugabe forseti hefur lagt landið sitt í rúst eða því sem næst: þetta fallega land, þar sem smjör gæti dropið af hverju strái. Hann hefur lýst stríði á hendur þelhvítum bændum og gert jarðir þeirra upptækar og afhent þær frændum og vinum, sem kunna ekkert til landbúnaðar, svo að akrarnir visna. Fólkið sveltur, og fjórði hver maður er smitaður af eyðniveirunni. Forsetinn er í útlöndum hálft árið með fríðu föruneyti - og myndi, býst ég við, hefði hann bara heflaðri smekk, hafa fullskipaða sinfóníuhljómsveit með í för til að vekja sig á morgnana eins og soldáninn í Óman. Mugabe felldi ástarhug til eiginkonu eins embættismanna sinna og gerði hann þá að sendiherra í Mongólíu og giftist konunni með viðhöfn. Hún klæddist hvítu við athöfnina til að auðkenna nýfallna mjöll - og var þó komin af viðkvæmasta skeiði. Það hefur ekki fengizt upplýst hver kostaði brúðkaup aldarinnar þarna suður frá. Það hefur ekki heldur verið upplýst hvort meintar mútugreiðslur voru inntar af hendi eða ekki. Blaðamenn eru leiddir á næstu lögreglustöð og lúbarðir, ef þeir spyrja slíkra spurninga. Hvers vegna er Mugabe forseta svo mjög í mun að troða frændum og vinum í hæstarétt? Spurningin svarar sér sjálf: ef spillingin í kringum forsetann kemur til kasta dómstólanna, þá ríður á því, að traustir menn sitji í hæstarétti. Þess vegna veldur sýknudómur réttarins yfir stjórnarandstöðuleiðtoganum þungum áhyggjum í herbúðum forsetans og gæti m.a.s. kostað blóðbað. Af þessu ásamt öðru má ráða mikilvægi þess, að hæstiréttur sé hafinn yfir grunsemdir um hlutdrægni. Ef hæstiréttur er vilhallur og hylmir yfir spilltum stjórnvöldum, þá er voðinn vís. Sem minnir mig á Rúmeníu: þar mun vera ódýrara að kaupa sér dómara en að leigja sér lögfræðing.