Innlent

Réttarhöld hefjast 18. október

Réttarhöld í líkfundarmálinu hefjast 18. október í Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómurinn hafnaði í dag kröfu verjenda um að ákæruvaldið aflaði sjúkraskýrslna frá Litháen um hinn látna, Vaidas Jusevicius. Þeim Grétari Sigurðarsyni, Jónasi Inga Ragnarssyni og Tomasi Malakauskas er gert að sök að hafa staðið að innflutningi á amfetamíni sem Vaidas Jusevicius flutti hingað til lands- innvortis. Þá er ákærðu gefið að sök brot gegn lífi og líkama, fyrir að koma Vaidasi ekki til hjálpar í lífsháska, eftir að hann veiktist 3. febrúar vegna stíflu í mjógirni af völdum fíkniefnapakkninga sem leiddi hann til dauða þremur dögum síðar. Ákærðu er einnig gefið að sök ósæmileg meðferð á líki Vaidasar með því að hafa flutt lík hans austur í Neskaupstað þar sem ákærðu sökktu því í sjó. Við fyrirtöku málsins játaði Grétar Sigurðarson, einn sakborninga, að hafa stungið lík Vaidasar Jusevicius. Tomas Malakauskas játaði að hafa staðið að innflutningi amfetamínsins ásamt Viadasi. Jónas Ingi Ragnarsson sagðist saklaus af öllum ákæruatriðum. Verjendur fóru fram á að ákæruvaldið aflaði sjúkraskýrslna frá Litháen um Vaidas Jusevicius sem gætu varpað ljósi á andlát hans, en því hafnaði dómurinn í morgun. Myndin er af Grétari Sigurðarsyni við þingfestingu málsins fyrr á árinu. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×