Innlent

Krafist 5 mánaða fangelsis

Ragnar Sigurjónsson, sem framseldur var frá Taílandi vegna fjársvikamáls, segist hafa verið farinn að undirbúa heimför þegar hann var framseldur. Ákæruvaldið krefst þess að Ragnar verði dæmdur í fimm mánaða fangelsi.  Aðalmeðferð í máli Ragnars lauk í dag og verður dómur kveðinn upp innan þriggja vikna. Sem kunnugt er hvarf Ragnar á sínum tíma þegar hann var í London og fréttist ekkert af honum fyrr en síðar, og þá í Taílandi. Áður en hann hvarf hafði verið gefin út ákæra á hendur honum vegna fjársvika í tengslum við skreiðaviðskipti við nígerískan mann. Ragnar gaf skýrslu öðru sinni fyrir dómi í dag og sagðist hann þar hafa verið farinn að undirbúa heimaför þegar hann var framseldur. Hann hafi viljað koma heim á þessum tíma bæði af persónulegum ástæðum sem og heilsufarsástæðum og sagðist Ragnar hafa haft samband við konsúl Íslands í Taílandi vegna þess. Aðspurður sagðist hann ekki hafa haft samband við lögreglu eða dómsmálayfirvöld, fyrst hann ætlaði að koma heim. Þau lög sem Ragnar er sakaður um að hafa brotið gegn kveða á um allt að sex ára fangelsi. Steinar Dagur Adolfsson, sækjandi í málinu, fór fram á að Ragnar yrði dæmdur í fimm mánaða fangelsi. Hann sagði fjársvikabrot alvarlegan glæp, Ragnar hefði haft út úr brotinu talsverða fjárhæð og brotaviljinn hafi verið skýr. Sækjandinn velti fyrir sér hvort að flótti Ragnars ætti að hafa áhrif á refsinguna og sagði erfitt að líta framhjá honum. Verjandi Ragnars krafðist sýknu og benti á Ragnar hefði margoft mætt við fyrirtökur og fleira í málinu og næg tækifæri hefðu verið til að taka af honum skýrslu fyrir dómi, en ekki gert. Til dæmis hefði kærandinn í málinu, nígeríski skreiðakaupmaðurinn, komið fyrir dóm og gefið skýrslu og sáraeinfalt og eðlilegt hefði verið að gera það þá .



Fleiri fréttir

Sjá meira


×