Eignarnám eða skuldaskil? 9. september 2004 00:01 Lögverndaður einkaeignarréttur er mikilvægur hornsteinn lýðræðis og markaðsbúskapar – þeirrar þjóðfélagsskipanar, sem hefur skilað manninum mestum árangri frá öndverðu, hvernig sem á er litið. Gildi eignarréttarins er ekki ný uppfinning: heimspekingar og hagfræðingar fyrri alda gerðu sér glögga grein fyrir gildi hans, enda þótt þjóðum heimsins hafi gengið misvel að virða eignarrétt einstaklingsins og búa vendilega um hann í löggjöf. Gildi eignarréttarins blasir við, ef menn hugleiða hinn kostinn: að hver sem er geti gengið í eigur annarra án þess að þurfa að svara til saka. Þá hryndi áhugi manna á auðsöfnun eins og spilaborg: þeir sætu heldur með hendur í skauti en leggja hart að sér, ef ávinningur alls erfiðis gæti hvort eð er fallið ræningjum í skaut, án þess að nokkrum lögvörnum yrði við komið. Rán og gripdeildir væru þá arðvænasti atvinnuvegurinn, og öryggisleysi legði lamandi hönd á heilbrigt athafnalíf. Sumir myndu halda eigin lögreglu til að vernda eigur sínar, fæstir hefðu þó tök á því. Langflestir leptu dauðann úr skel, og einmitt þannig liðu miðaldirnar í Evrópu. Rökin fyrir einkaeignarrétti hljóma misvel úr munni manna. Þau hljóma t.d. ekki mjög vel úr munni þjófa – nú eða annarra, sem hafa náð að sölsa undir sig eða hjálpað öðrum til að sölsa undir sig réttmætar eigur annarra. Rökin fyrir friðhelgi eignarréttarins hljómuðu ekki heldur vel úr munni þrælahaldara, sem báru sig aumlega undan því að þurfa að gefa þrælum sínum frelsi á ofanverðri 18. og 19. öld. Eigendur þrælanna fluttu þá gjarnan grátklökkar ræður um löghelgi þrælahaldsins og gátu jafnvel vitnað í stjórnarskrá Bandaríkjanna máli sínu til stuðnings: afnám þrælahalds væri eignarnám og myndi svipta þá hefðbundnum atvinnuréttindum, kippa fótunum undan atvinnulífinu o.s.frv. Kannast nokkur við það? Einkaeignarrétturinn nær misvel yfir eigur manna, eftir því hvers eðlis þær eru og hvernig menn komust yfir þær. Þræladæmið er alveg skýrt: þjóðfélagið skipti um skoðun af eigin rammleik og ákvað að líta heldur svo á, að þrælahald væri andstætt réttlætishugsjón kristinna manna. Þessum sinnaskiptum ollu sumpart innanverð öfl, þ.e. sannfæring góðra manna, en hatrammar uppreisnir þræla áttu sums staðar einnig hlut að máli. Bandaríkjamenn háðu blóðuga borgarastyrjöld, sem snerist upp í stríð um þrælahald, og 600 þúsund manns létu lífið. Í stríðslok 1865 var þrælahaldið afnumið, án þess að nokkrar bætur kæmu fyrir (nema í Washington: þar voru þrælaeigendum greiddir 300 dollarar á hvern þræl til málamynda). Þrælahaldarar fengu hvergi fullar bætur – þ.e. markaðsverð – fyrir þrælana, sem þeim var gert með lögum að leysa úr haldi. Bretar afnámu þrælahald í nýlendum sínum 1833 og greiddu þrælahöldurum á Karíbahafseyjum 20 milljónir punda í skaðabætur. Franska ríkisstjórnin neyddi Haítí til að greiða sér 20 milljónir franka í bætur vegna þeirra búsifja, sem franskir þrælahaldarar þar urðu fyrir, þegar landið tók sér sjálfstæði 1804 fyrst landa í Karíbahafi. Það tók eyjarskeggja hundrað ár að ljúka skuldinni, og þeir hafa ekki borið sitt barr síðan. En almenna reglan var þessi: engar bætur. Og þó ekki væri. Áttu frönsku byltingarmennirnir að greiða aðlinum skaðabætur fyrir forréttindin, sem hann missti 1789? Auðvitað ekki: spurningin svarar sér sjálf. Forréttindi, sem menn hafa skammtað sér sjálfir eða látið aðra skammta sér, er hægt að taka af þeim aftur með fullum og fyrirvaralausum rétti. Ef tiltekin eign er illa fengin, þá er upptaka hennar ekki eignarnám, heldur skuldaskil. Ef stjórnarmeirihlutinn á Alþingi tæki t.d. upp á því að gefa forsætisráðherra Þingvelli eða Skarðsbók í kveðjuskyni með þökkum fyrir vel unnin störf, þá gæti nýtt Alþingi snúið við blaðinu án þess að bæta ráðherranum skaðann. Þetta skilja útvegsmenn, og þeir hafa því í stórum stíl flutt hagnað sinn af aflakvótasölu í skjól í útlöndum, svo sem Morgunblaðið lýsti megnri hneykslan sinni á fyrir skömmu. Þá skoraði ég á þessum stað á forsætisráðuneytið að gera opinbera grein fyrir því, hversu mikill hluti þjóðareignarinnar hefur þegar verið fluttur úr landi. Nú leyfi ég mér góðfúslega að ítreka þessa áskorun, enda heyrir Hagstofa Íslands undir forsætisráðuneytið: hæg eru heimatökin. Fiskimiðin eru sameign þjóðarinnar. Þjóðin á heimtingu á því, að arðinum af eigninni sé varið í hennar þágu. Hafi orðið misbrestur á því, þá á þjóðin a.m.k. heimtingu á að fá að vita, hvernig arðinum var eytt. Nema menn vilji heldur lifa lífinu ljúgandi, eða með lokuð augu. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Er þetta alvöru? Bjarni Karlsson Skoðun Skilaboð hátíðarinnar Skúli S. Ólafsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun
Lögverndaður einkaeignarréttur er mikilvægur hornsteinn lýðræðis og markaðsbúskapar – þeirrar þjóðfélagsskipanar, sem hefur skilað manninum mestum árangri frá öndverðu, hvernig sem á er litið. Gildi eignarréttarins er ekki ný uppfinning: heimspekingar og hagfræðingar fyrri alda gerðu sér glögga grein fyrir gildi hans, enda þótt þjóðum heimsins hafi gengið misvel að virða eignarrétt einstaklingsins og búa vendilega um hann í löggjöf. Gildi eignarréttarins blasir við, ef menn hugleiða hinn kostinn: að hver sem er geti gengið í eigur annarra án þess að þurfa að svara til saka. Þá hryndi áhugi manna á auðsöfnun eins og spilaborg: þeir sætu heldur með hendur í skauti en leggja hart að sér, ef ávinningur alls erfiðis gæti hvort eð er fallið ræningjum í skaut, án þess að nokkrum lögvörnum yrði við komið. Rán og gripdeildir væru þá arðvænasti atvinnuvegurinn, og öryggisleysi legði lamandi hönd á heilbrigt athafnalíf. Sumir myndu halda eigin lögreglu til að vernda eigur sínar, fæstir hefðu þó tök á því. Langflestir leptu dauðann úr skel, og einmitt þannig liðu miðaldirnar í Evrópu. Rökin fyrir einkaeignarrétti hljóma misvel úr munni manna. Þau hljóma t.d. ekki mjög vel úr munni þjófa – nú eða annarra, sem hafa náð að sölsa undir sig eða hjálpað öðrum til að sölsa undir sig réttmætar eigur annarra. Rökin fyrir friðhelgi eignarréttarins hljómuðu ekki heldur vel úr munni þrælahaldara, sem báru sig aumlega undan því að þurfa að gefa þrælum sínum frelsi á ofanverðri 18. og 19. öld. Eigendur þrælanna fluttu þá gjarnan grátklökkar ræður um löghelgi þrælahaldsins og gátu jafnvel vitnað í stjórnarskrá Bandaríkjanna máli sínu til stuðnings: afnám þrælahalds væri eignarnám og myndi svipta þá hefðbundnum atvinnuréttindum, kippa fótunum undan atvinnulífinu o.s.frv. Kannast nokkur við það? Einkaeignarrétturinn nær misvel yfir eigur manna, eftir því hvers eðlis þær eru og hvernig menn komust yfir þær. Þræladæmið er alveg skýrt: þjóðfélagið skipti um skoðun af eigin rammleik og ákvað að líta heldur svo á, að þrælahald væri andstætt réttlætishugsjón kristinna manna. Þessum sinnaskiptum ollu sumpart innanverð öfl, þ.e. sannfæring góðra manna, en hatrammar uppreisnir þræla áttu sums staðar einnig hlut að máli. Bandaríkjamenn háðu blóðuga borgarastyrjöld, sem snerist upp í stríð um þrælahald, og 600 þúsund manns létu lífið. Í stríðslok 1865 var þrælahaldið afnumið, án þess að nokkrar bætur kæmu fyrir (nema í Washington: þar voru þrælaeigendum greiddir 300 dollarar á hvern þræl til málamynda). Þrælahaldarar fengu hvergi fullar bætur – þ.e. markaðsverð – fyrir þrælana, sem þeim var gert með lögum að leysa úr haldi. Bretar afnámu þrælahald í nýlendum sínum 1833 og greiddu þrælahöldurum á Karíbahafseyjum 20 milljónir punda í skaðabætur. Franska ríkisstjórnin neyddi Haítí til að greiða sér 20 milljónir franka í bætur vegna þeirra búsifja, sem franskir þrælahaldarar þar urðu fyrir, þegar landið tók sér sjálfstæði 1804 fyrst landa í Karíbahafi. Það tók eyjarskeggja hundrað ár að ljúka skuldinni, og þeir hafa ekki borið sitt barr síðan. En almenna reglan var þessi: engar bætur. Og þó ekki væri. Áttu frönsku byltingarmennirnir að greiða aðlinum skaðabætur fyrir forréttindin, sem hann missti 1789? Auðvitað ekki: spurningin svarar sér sjálf. Forréttindi, sem menn hafa skammtað sér sjálfir eða látið aðra skammta sér, er hægt að taka af þeim aftur með fullum og fyrirvaralausum rétti. Ef tiltekin eign er illa fengin, þá er upptaka hennar ekki eignarnám, heldur skuldaskil. Ef stjórnarmeirihlutinn á Alþingi tæki t.d. upp á því að gefa forsætisráðherra Þingvelli eða Skarðsbók í kveðjuskyni með þökkum fyrir vel unnin störf, þá gæti nýtt Alþingi snúið við blaðinu án þess að bæta ráðherranum skaðann. Þetta skilja útvegsmenn, og þeir hafa því í stórum stíl flutt hagnað sinn af aflakvótasölu í skjól í útlöndum, svo sem Morgunblaðið lýsti megnri hneykslan sinni á fyrir skömmu. Þá skoraði ég á þessum stað á forsætisráðuneytið að gera opinbera grein fyrir því, hversu mikill hluti þjóðareignarinnar hefur þegar verið fluttur úr landi. Nú leyfi ég mér góðfúslega að ítreka þessa áskorun, enda heyrir Hagstofa Íslands undir forsætisráðuneytið: hæg eru heimatökin. Fiskimiðin eru sameign þjóðarinnar. Þjóðin á heimtingu á því, að arðinum af eigninni sé varið í hennar þágu. Hafi orðið misbrestur á því, þá á þjóðin a.m.k. heimtingu á að fá að vita, hvernig arðinum var eytt. Nema menn vilji heldur lifa lífinu ljúgandi, eða með lokuð augu.
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun
Hugum að loftgæðum, heilsu og sjálfbærni um jólin – eigum loftgæða jól! Heiða Mjöll Stefánsdóttir,Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir Skoðun