Styrr um stjórnarskrá 14. júlí 2004 00:01 Austurríkismenn fengu nýjan forseta á dögunum. Gamli forsetinn, Thomas Klestil, sem lézt um aldur fram örskömmu fyrir umskiptin, lét ýmislegt gott af sér leiða þau tólf ár, sem hann gegndi embættinu. Það kom í hans hlut að bæta ásjónu lands síns í augum umheimsins, eftir að forveri hans, Kurt Waldheim, fyrrv. aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hafði orðið uppvís að því að segja ósatt um athafnir sínar í síðari heimsstyrjöldinni. Waldheim var þá í þýzka hernum á Balkanskaga og hélt því leyndu áratugum saman. Klestil virkjaði einnig áður ónýtta heimild forsetans skv. stjórnarskrá til að synja ráðherrum staðfestingar á skipun í embætti. Tildrögin voru þau, að Frelsisflokkurinn, sem berst gegn innflytjendum, vann kosningasigur 1999 og myndaði árið eftir samsteypustjórn með öðrum stóru, gömlu flokkanna, sem eru kallaðir helmingaskiptaflokkar meðal heimamanna -- kannast nokkur við það? Nema Klestil forseti neytti réttar síns til að koma í veg fyrir, að tveir af harðskeyttustu mönnum Frelsisflokksins tækju sæti í ríkisstjórn. Þannig stendur á því, að helzti foringi flokksins, Jörg Haider (hann hefur hælt Hitler upp í hástert fyrir miklar framfarir í samgöngumálum), hefur ekki enn tekið sæti í ríkisstjórninni, sem flokkur hans hefur átt aðild að síðan 2000. Stjórnmálastéttin misvirti forsetann fyrir þessi afskipti, en virðing hans meðal almennings og erlendis óx að sama skapi. Þess varð ekki vart, að lögfræðingar eða stjórnmálamenn drægju í efa rétt forseta Austurríkis til að synja ráðherraskipun staðfestingar, enda á forsetinn aðild að framkvæmdarvaldi skv. stjórnarskrá landsins líkt og hér heima, sbr. 15. gr. stjórnarskrár Íslands: "Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim". Valddreifingarákvæði eru sett í stjórnarskrá að yfirlögðu ráði. Eigi að síður fást ýmsir lögfræðingar og stjórnmálamenn hér heima ekki til að viðurkenna valddreifingarhugsunina á bak við stjórnarskrána. Fyrst vefengdu þeir heimild forseta Íslands til að synja lögum staðfestingar, enda þótt allur þorri þjóðarinnar hafi gengið út frá þessari heimild sem gefnum hlut allar götur frá stofnun lýðveldisins. Síðan lögðu þeir á ráðin um að krefjast aukins meiri hluta fyrir synjun (ekki fyrir staðfestingu!) fjölmiðlafrumvarpsins, enda þótt stjórnarskráin veiti ekki heimild til slíks. Og nú segjast þeir ætla að blása atkvæðagreiðsluna af, enda þótt ekki sé ljóst, að stjórnarskráin veiti heimild til þess, eins og prófessorarnir Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal hafa lýst. Þrátt fyrir allan lögvafann, sem leikur á málinu, æðir ríkisstjórnin áfram, úr einu feninu í annað, nú síðast án þess að fyrir liggi skrifaðar lögfræðilegar álitsgerðir handa henni og almenningi að glöggva sig á. "Ég er menntaður lögfræðingur", sagði forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali í fyrra. Kannski það dugi? En Ísland er réttarríki, og fjölmiðlamálið verður e.t.v. útkljáð fyrir dómstólum. Þvílík málalok eru þó ekkert sérstakt tilhlökkunarefni þeim, sem unna lýðræði og frjálsum fjölmiðlum, því að þrískiptingu valdsins í stjórnskipan Íslands er ábótavant: dómsvaldið hefur ekki náð að marka sér óskorað sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi. Látum eitt dæmi duga. Í desember 1998 felldi Hæstiréttur merkan úrskurð þess efnis, að synjun sjávarútvegsráðuneytisins á umsókn Valdimars Jóhannessonar um leyfi til fiskveiða bryti í bága við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Formenn ríkisstjórnarflokkanna brugðust báðir ókvæða við dóminum. Þegar 105 af 150 prófessorum í Háskóla Íslands þótti nauðsynlegt að senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu til stuðnings Hæstarétti, sá enginn prófessor í lagadeild sér fært að skrifa undir. Einn þeirra skrifaði mér m.a.s. ámátlegt bréf, þar sem hann rakti fyrir mér refsingarnar, sem hann sagðist mundu kalla yfir sig og fjölskyldu sína, ef hann fylgdi sannfæringu sinni. Kúvending réttarins í kvótamálinu skömmu síðar var ekki til þess fallin að efla trú almennings á hlutleysi og sjálfstæði Hæstaréttar. Í nálægum löndum eru gerðar strangar kröfur til þeirra, sem skipaðir eru dómarar í hæstarétti, og er þá gjarnan miðað við sömu kröfur og gerðar eru til prófessora í lögum. Það er eðlileg viðmiðun. Lögmannafélagið hefur lengi lagt það til, að gerðar séu strangari hæfniskröfur til dómara til að girða fyrir misheppnaðar mannaráðningar í réttarkerfinu. Nýju dómstólalögin frá 1998 ganga ekki nógu langt í þessa átt. Eins og sakir standa eru gerðar meiri kröfur til héraðsdómara en til dómara í Hæstarétti. Lögfræðingar og aðrir ættu að hafa það hugfast, að í viðhorfskönnunum Gallups, þar sem spurt er um traust þjóðarinnar til ýmissa stofnana, hefur hallað mjög á dómskerfið ásamt Alþingi. Nú síðast í marz 2004 sögðust 37% þjóðarinnar treysta dómskerfinu, og 43% sögðust treysta Alþingi. Traust þjóðarinnar á dómskerfinu hefur aldrei farið upp fyrir 46%, síðan mælingar hófust 1997. Meiri hluti þjóðarinnar vantreystir því dómskerfinu. Til viðmiðunar segjast 85% treysta Háskóla Íslands. Einkunn Háskólans hefur aldrei farið niður fyrir 75%. Af þessum sökum m.a. þarf þjóðin að fá að gera út um fjölmiðlamálið beint og milliliðalaust, svo sem til var stofnað í krafti stjórnarskráinnar. Þjóðin fer sjálf með æðsta vald í eigin málum. Hennar dóm getur enginn leyft sér að tortryggja eða vefengja. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sagan að endurtaka sig í beinni Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir Skoðun Hin heimtufreka kennarastétt Áslaug Pálsdóttir Ragnheiðardóttir Skoðun Er leikskólinn ekki meira virði? Bryndís Björk Eyþórsdóttir Skoðun Halldór 25.01.2025 Halldór Hinn vandrataði vegur að starfslokum Ástríður Þórey Jónsdóttir Skoðun Að hengja bakara fyrir smið Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Svar til lögmanns SFS Magnús Guðmundsson Skoðun Þingmaðurinn og spillingin á Veðurstofunni Sigurgeir Bárðarson Skoðun Þjóðarátak í umönnun eldra fólks Einar Magnússon ,Þráinn Þorvaldsson Skoðun Hvers virði eru vísindi? Heiða María Sigurðardóttir,Erna Magnúsdóttir Skoðun
Austurríkismenn fengu nýjan forseta á dögunum. Gamli forsetinn, Thomas Klestil, sem lézt um aldur fram örskömmu fyrir umskiptin, lét ýmislegt gott af sér leiða þau tólf ár, sem hann gegndi embættinu. Það kom í hans hlut að bæta ásjónu lands síns í augum umheimsins, eftir að forveri hans, Kurt Waldheim, fyrrv. aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hafði orðið uppvís að því að segja ósatt um athafnir sínar í síðari heimsstyrjöldinni. Waldheim var þá í þýzka hernum á Balkanskaga og hélt því leyndu áratugum saman. Klestil virkjaði einnig áður ónýtta heimild forsetans skv. stjórnarskrá til að synja ráðherrum staðfestingar á skipun í embætti. Tildrögin voru þau, að Frelsisflokkurinn, sem berst gegn innflytjendum, vann kosningasigur 1999 og myndaði árið eftir samsteypustjórn með öðrum stóru, gömlu flokkanna, sem eru kallaðir helmingaskiptaflokkar meðal heimamanna -- kannast nokkur við það? Nema Klestil forseti neytti réttar síns til að koma í veg fyrir, að tveir af harðskeyttustu mönnum Frelsisflokksins tækju sæti í ríkisstjórn. Þannig stendur á því, að helzti foringi flokksins, Jörg Haider (hann hefur hælt Hitler upp í hástert fyrir miklar framfarir í samgöngumálum), hefur ekki enn tekið sæti í ríkisstjórninni, sem flokkur hans hefur átt aðild að síðan 2000. Stjórnmálastéttin misvirti forsetann fyrir þessi afskipti, en virðing hans meðal almennings og erlendis óx að sama skapi. Þess varð ekki vart, að lögfræðingar eða stjórnmálamenn drægju í efa rétt forseta Austurríkis til að synja ráðherraskipun staðfestingar, enda á forsetinn aðild að framkvæmdarvaldi skv. stjórnarskrá landsins líkt og hér heima, sbr. 15. gr. stjórnarskrár Íslands: "Forsetinn skipar ráðherra og veitir þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiptir störfum með þeim". Valddreifingarákvæði eru sett í stjórnarskrá að yfirlögðu ráði. Eigi að síður fást ýmsir lögfræðingar og stjórnmálamenn hér heima ekki til að viðurkenna valddreifingarhugsunina á bak við stjórnarskrána. Fyrst vefengdu þeir heimild forseta Íslands til að synja lögum staðfestingar, enda þótt allur þorri þjóðarinnar hafi gengið út frá þessari heimild sem gefnum hlut allar götur frá stofnun lýðveldisins. Síðan lögðu þeir á ráðin um að krefjast aukins meiri hluta fyrir synjun (ekki fyrir staðfestingu!) fjölmiðlafrumvarpsins, enda þótt stjórnarskráin veiti ekki heimild til slíks. Og nú segjast þeir ætla að blása atkvæðagreiðsluna af, enda þótt ekki sé ljóst, að stjórnarskráin veiti heimild til þess, eins og prófessorarnir Eiríkur Tómasson og Sigurður Líndal hafa lýst. Þrátt fyrir allan lögvafann, sem leikur á málinu, æðir ríkisstjórnin áfram, úr einu feninu í annað, nú síðast án þess að fyrir liggi skrifaðar lögfræðilegar álitsgerðir handa henni og almenningi að glöggva sig á. "Ég er menntaður lögfræðingur", sagði forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali í fyrra. Kannski það dugi? En Ísland er réttarríki, og fjölmiðlamálið verður e.t.v. útkljáð fyrir dómstólum. Þvílík málalok eru þó ekkert sérstakt tilhlökkunarefni þeim, sem unna lýðræði og frjálsum fjölmiðlum, því að þrískiptingu valdsins í stjórnskipan Íslands er ábótavant: dómsvaldið hefur ekki náð að marka sér óskorað sjálfstæði gagnvart framkvæmdarvaldi og löggjafarvaldi. Látum eitt dæmi duga. Í desember 1998 felldi Hæstiréttur merkan úrskurð þess efnis, að synjun sjávarútvegsráðuneytisins á umsókn Valdimars Jóhannessonar um leyfi til fiskveiða bryti í bága við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Formenn ríkisstjórnarflokkanna brugðust báðir ókvæða við dóminum. Þegar 105 af 150 prófessorum í Háskóla Íslands þótti nauðsynlegt að senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu til stuðnings Hæstarétti, sá enginn prófessor í lagadeild sér fært að skrifa undir. Einn þeirra skrifaði mér m.a.s. ámátlegt bréf, þar sem hann rakti fyrir mér refsingarnar, sem hann sagðist mundu kalla yfir sig og fjölskyldu sína, ef hann fylgdi sannfæringu sinni. Kúvending réttarins í kvótamálinu skömmu síðar var ekki til þess fallin að efla trú almennings á hlutleysi og sjálfstæði Hæstaréttar. Í nálægum löndum eru gerðar strangar kröfur til þeirra, sem skipaðir eru dómarar í hæstarétti, og er þá gjarnan miðað við sömu kröfur og gerðar eru til prófessora í lögum. Það er eðlileg viðmiðun. Lögmannafélagið hefur lengi lagt það til, að gerðar séu strangari hæfniskröfur til dómara til að girða fyrir misheppnaðar mannaráðningar í réttarkerfinu. Nýju dómstólalögin frá 1998 ganga ekki nógu langt í þessa átt. Eins og sakir standa eru gerðar meiri kröfur til héraðsdómara en til dómara í Hæstarétti. Lögfræðingar og aðrir ættu að hafa það hugfast, að í viðhorfskönnunum Gallups, þar sem spurt er um traust þjóðarinnar til ýmissa stofnana, hefur hallað mjög á dómskerfið ásamt Alþingi. Nú síðast í marz 2004 sögðust 37% þjóðarinnar treysta dómskerfinu, og 43% sögðust treysta Alþingi. Traust þjóðarinnar á dómskerfinu hefur aldrei farið upp fyrir 46%, síðan mælingar hófust 1997. Meiri hluti þjóðarinnar vantreystir því dómskerfinu. Til viðmiðunar segjast 85% treysta Háskóla Íslands. Einkunn Háskólans hefur aldrei farið niður fyrir 75%. Af þessum sökum m.a. þarf þjóðin að fá að gera út um fjölmiðlamálið beint og milliliðalaust, svo sem til var stofnað í krafti stjórnarskráinnar. Þjóðin fer sjálf með æðsta vald í eigin málum. Hennar dóm getur enginn leyft sér að tortryggja eða vefengja.