Handbolti

Aron og félagar komust ekki í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron fær óblíðar móttökur frá Dönunum Mikkel Hansen og Henrik Möllgard.
Aron fær óblíðar móttökur frá Dönunum Mikkel Hansen og Henrik Möllgard. vísir/getty
Aron Pálmarsson og félagar í Veszprém töpuðu með eins marks mun, 26-27, fyrir Paris Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í Köln í dag. PSG mætir annað hvort Vardar eða Barcelona í úrslitaleiknum á morgun.

PSG var lengst af með frumkvæðið í leiknum í dag þótt munurinn á liðunum væri aldrei mikill.

Staðan var jöfn í hálfleik, 11-11, en Veszprém byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst yfir. Í stöðunni 15-14 fyrir Veszprém kom góður kafli hjá PSG sem skoraði þrjú mörk í röð og náði forystunni sem liðið lét ekki af hendi.

Aron skoraði aðeins eitt mark úr sex skotum en gaf á annan tug stoðsendinga. Þær hefðu getað orðið fleiri en leikmenn Veszprém fóru illa að ráði sínu í nokkrum dauðafærum í leiknum.

Uwe Gensheimer og Mikkel Hansen skoruðu sjö mörk hvor fyrir PSG og þá átti Daniel Narcisse góða innkomu. Thierry Omeyer varði einnig vel í fyrri hálfleik.

László Nagy skoraði sex mörk fyrir Veszprém og Gasper Marguc fimm.

Hér fyrir neðan má lesa beina textalýsingu frá leiknum.

26-27 (Leik lokið): Veszprém tapar boltanum í lokasókninni og PSG fagnar sigri. Nilsson grípur ekki línusendingu Arons.

25-27 (58. mín): Nikola Karabatic kemur PSG tveimur mörkum yfir með sínu fyrsta marki í leiknum. Staðan er orðin erfið fyrir Veszprém.

25-26 (56. mín): Narcisse fer hrikalega illa með Nilsson, fiskar víti og hann út af. Mikler ver hins vegar vítið frá Hansen. Afar mikilvægt.

23-25 (54. mín): Hansen kemur PSG tveimur mörkum yfir af vítalínunni. Daninn er kominn með sjö mörk, líkt og Gensheimer.

21-21 (49. mín): Aron sleppir boltanum inn á línuna á Blaz Blagotinsek sem skorar. Aron er kominn með hátt í 10 stoðsendingar í leiknum.

18-19 (45. mín): Mirko Alilovic ver víti frá Gensheimer og Marguc refsar með marki hinum megin. Aron að sjálfsögðu með stoðsendinguna. Hann er eins og fóstra; matar samherja sína.

16-19 (42. mín): Hansen þrumar boltanum í netið. Þriggja marka munur. Veszprém myndi þiggja betri markvörslu en liðið hefur fengið í leiknum. Svo vantar Ungverjana mörk utan af velli.

15-17 (39. mín): Þrjú mörk í röð hjá PSG. Xavier Sabaté, þjálfari Veszprém, tekur leikhlé. Þau eru jafnan skemmtileg. Útileikmennirnir hjá Veszprém, Aron, Ilic og Nagy, eru aðeins 5 af 18 í skotum í leiknum.

15-14 (37. mín): Aron finnur Nilsson sem skorar. Önnur stoðsending Arons í röð. Sóknin gengur vel hjá Veszprém hér í upphafi seinni hálfleiks.

13-13 (34. mín): Nagy lyftir sér upp og skorar. Tími til kominn. Ekki verið neitt sérstakur í sókninni í dag.

12-13 (32. mín): Daniel Narcisse með tvö mörk í röð og PSG komið yfir á nýjan leik. Fín innkoma hjá Narcisse.

11-11 (Seinni hálfleikur hafinn): Veszprém byrjar með boltann og getur komist yfir.

11-11 (Fyrri hálfleik lokið): Staðan jöfn eftir fyrri hálfleikinn. Gríðarlega jafn leikur þar sem varnirnar eru í aðalhlutverki. Aron er kominn með eitt mark og nokkrar stoðsendingar. Veszprém hefur farið illa með full mörg færi og er aðeins með 48% skotnýtingu og 30% sóknarnýtingu. PSG gengur illa í uppstilltum sóknarleik en hefur keyrt hraðaupphlaupin vel.

9-9 (27. mín): Aron laumar boltanum inn á línuna á Andreas Nilsson sem jafnar metin. Aron er búinn að eiga nokkrar frábærar sendingar sem samherjar hans hafa ekki skilað í marki. Nilsson urðu hins vegar ekki á nein mistök þarna.

8-9 (24. mín): Dragan Gajic minnkar muninn í eitt mark af vítalínunni. Slóvensku hægri hornamennirnir hjá Veszprém eru komnir með samtals fjögur mörk, eða helming marka liðsins.

6-8 (19. mín): Omeyer ver víti frá Momir Ilic og svo skot frá László Nagy. Þessi aldni höfðingi byrjar leikinn frábærlega.

6-7 (15. mín): Aron minnkar muninn í eitt mark með sínu fyrsta marki. Tvö mörk í röð frá Veszprém.

4-7 (13. mín): Thierry Omeyer ver frá Cristian Ugalde í dauðafæri. Mikkel Hansen refsar hinum megin. Veszprém hefur farið illa með of mörg dauðafæri.

3-5 (8. mín): Tvö hraðaupphlaupsmörk í röð frá PSG. Gensheimer byrjar af krafti og er kominn með þrjú mörk.

3-3 (6. mín): Uwe Gensheimer jafnar í 3-3 með sínu öðru marki. Sóknir liðanna eru beittar hér í upphafi leiks.

1-1 (3. mín): Luka Stepancic skorar fyrsta mark leiksins en Renato Sulic svarar fyrir Veszprém.

0-0 (Leikur hafinn): Frakkarnir byrja með boltann. Aron spilar ekki vörnina til að byrja með.

Fyrir leik:

Öll formsatriði að baki og þá getur þetta hafist.

Fyrir leik:

Þrátt fyrir að peningum hafi verið ausið í liðið á undanförnum árum hefur PSG aldrei unnið Meistaradeildina. Sömu sögu er að segja af Veszprém sem hefur tapað í öll þrjú skiptin sem liðið hefur komist í úrslit (2002, 2015 og 2016).

Fyrir leik:

Liðin voru saman í riðli í riðlakeppninni. PSG vann fyrri leikinn á heimavelli Veszprém, 28-29, og þann seinni í París, 28-24.

Fyrir leik:

Aron er þrautreyndur á þessu sviði en hann hefur komist í undanúrslit Meistaradeildarinnar undanfarin sex ár og sjö sinnum alls. Hann varð meistari með Kiel 2010 og 2012 og var valinn besti leikmaður úrslitahelgarinnar 2014 og 2016 þrátt fyrir að vera í silfurliði.

Fyrir leik:

Okkar maður, Aron Pálmarsson, er í stóru hlutverki hjá Veszprém og hefur komið virkilega sterkur inn eftir meiðslin sem héldu honum frá þátttöku á HM í Frakklandi. Aron var t.a.m. frábær í leikjunum við Montpellier í 8-liða úrslitunum.

Fyrir leik:

Góðan daginn og velkomin til leiks. Hér ætlum við að fylgjast með leik Veszprém og Paris Saint-Germain í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×