KA hefur fengið Kristófer Pál Viðarsson á láni frá Víkingi R. Lánssamningurinn er til eins árs eða svo.
Kristófer Páll, sem er 19 ára, sló í gegn með Leikni F. í sumar en hann skoraði 10 mörk í 22 leikjum í Inkassodeildinni.
Fjögur af þessum 10 mörkum komu í ótrúlegum sigri Leiknismanna á HK í lokaumferð deildarinnar en með honum bjargaði liðið sér frá falli niður í 2. deild.
Kristófer Páll er uppalinn hjá Leikni F. en fór til Víkings R. fyrir tveimur árum. Hann hefur ekki enn leikið með meistaraflokki Víkings R.
Það hefur verið nóg að gera á skrifstofu KA eftir að liðið tryggði sér sæti í Pepsi-deildinni í haust eftir 12 ára fjarveru.
Í gær samdi Ásgeir Sigurgeirsson við KA til tveggja ára en auk hans hafa Aleksandar Trninic og Guðmann Þórisson gert nýja samninga við Akureyrarliðið.
Bjargvættur Leiknis F. lánaður til KA

Tengdar fréttir

KA keypti Ásgeir frá Stabæk
Húsvíkingurinn efnilegi, Ásgeir Sigurgeirsson, verður áfram í herbúðum KA.