Sergio Agüero skoraði þrennu þegar Manchester City vann 4-0 sigur á Borussia Mönchengladbach í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld.
Leikurinn átti að fara fram í gær en var frestað vegna mikillar rigningar í Manchester.
Agüero var í miklu stuði og skoraði sína aðra þrennu í Meistaradeildinni í ár. Hann skoraði einnig þrjú mörk þegar City vann Steuea Búkarest í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í riðlakeppninni í síðasta mánuði.
Fyrsta markið kom strax á 8. mínútu. Agüero setti þá boltann í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf Aleksandars Kolarov. Argentínumaðurinn skoraði annað markið úr vítaspyrnu á 28. mínútu og það þriðja á 77. mínútu eftir stungusendingu Raheems Sterling.
Agüero fór af velli á 83. mínútu og í hans stað kom Kelechi Iheanacho. Nígeríumaðurinn ungi negldi svo síðasta naglann í kistu Mönchengladbach þegar hann skoraði fjórða mark City í uppbótartíma. Lokatölur 4-0, City í vil.
City er því með þrjú stig í A-riðli líkt og Barcelona sem vann 7-0 sigur á Celtic í gær.
