Kári Árnason var besti leikur íslenska liðsins í 3-0 sigrinum á Kasakstan í undankeppni EM 2016 í dag, en hann spilaði frábærlega í vörninni.
Hann fær átta í einkunn fyrir sína frammistöðu líkt og Jóhann Berg, Eiður Smári og Birkir Bjarnason sem spiluðu einnig allir mjög vel.
Hér að neðan má sjá einkunnir Vísis fyrir leikinn í Astana.
Einkunnir íslensku strákanna:
Hannes Þór Halldórsson 7
Öruggur í sínum aðgerðum og ekki að sjá hann hefur ekki spilað „alvöru“ leik á árinu. Varði allt sem á markið kom og sparkaði vel út undir pressu Kasaka.
Birkir Már Sævarsson 7
Traustur í varnarleiknum og átti góða spretti til baka þegar Kasakar sóttu hratt. Stöðvaði margar skyndisóknir. Fínn fram á við, náði ágætlega saman við Jóhann Berg og átti 2-3 góðar fyrirgjafir.
Kári Árnason 8
Mjög góður leikur hjá miðverðinum. Var látinn bera upp boltann frá endalínu í fyrri hálfleik til að spila í gegnum pressu heimamanna. Kom spilinu í gang með góðum sendingum. Ógnarsterkur í loftinu og í heildina besti varnarmaður Íslands í dag.
Ragnar Sigurðsson 7
Sterkur í loftinu líkt og Kári. Las margar sendingar vel hjá Kasökum og gerði Hannesi lífið auðveldara.
Ari Freyr Skúlason 6
Ágætur fram á við með góðar sendingar en lenti stundum í vandræðum í vörninni. Missti menn framhjá sér og braut klaufalega sem skiluðu föstum leikatriðum fyrir Kasakstan. Eitt brotið hans leiddi næstum til marks Kasakstan sem hefði komið því inn í leikinn.
Jóhann Berg Guðmundsson 8
Kom virkilega sprækur inn og greinilega ólmur í að sýna sig og sanna. Heimir og Lars lásu þetta alveg rétt með að láta Jóhann byrja. Var sérstaklega frískur í fyrri hálfleik og lagði upp fyrsta markið eftir að vinna boltann sjálfur.
Gylfi Þór Sigurðsson 7
Ekki sami stjörnuleikurinn frá Gylfa Þór og í öðrum leikjum í undankeppninni en gæði hans eru slík að það skiptir ekki öllu máli. Átti í smá vandræðum með móttökur alveg í byrjun leiksins en komst fljótlega betur í takt við leikinn og dreifði spilinu vel. Tengdi vel við Eið Smára. Þeim leiðist ekki að spila saman.
Aron Einar Gunnarsson 7
Var meira með boltann en oft áður. Þurfti að rekja hann langar vegalengdir í fyrri hálfleik sérstaklega þegar Kasakarnir stilltu upp í tíu manna varnarleik. Fór vel með boltann, sendingar góðar og var á réttum stað á okkar vallarhelmingi. Fór meiddur af velli.
Birkir Bjarnason 8
Mjög góður leikur hjá Birki sem hljóp úr sér lungun frá fyrstu mínútu. Gerði meira en það; komst vel inn í spilið, skilaði sendingum frábærlega frá sér og skoraði tvö mörk.
Eiður Smári Guðjohnsen 8
Það þarf ekkert að taka fram hversu miklir töfrar eru í þessum fótum. Kasakarnir gátu ekki hirt af honum boltann sama hversu margir reyndu í einu. Róaði leik liðsins þegar það þurfti en sprengdi svo upp vörn heimamanna með eitruðum sendingum. Skoraði fyrsta markið með frábærri afgreiðslu.
Kolbeinn Sigþórsson 5
Ekki góður leikur hjá framherjanum. Var aldrei í takt við leikinn, fékk boltann í hælana og skilaði varla sendingu frá sér til að byrja með. Sterkur í loftinu en hann getur mun betur.
Varamenn:
Jón Daði Böðvarsson fyrir Kolbein Sigþórsson (70.) 6
Kom inn á og djöflaðist í framlínunni. Vann nokkur skallaeinvígi en mátti losa boltann fyrr á samherja þegar það bauðst. Átti sendinguna á Birki í þriðja markinu.
Emil Hallfreðsson fyrir Aron Einar Gunnarsson (72.) -
Alfreð Finnbogason fyrir Eiðs Smára Guðjohnsen (83.) -

