Viðskipti
Fjárfestar erlendis eiga helming íslenskra ríkisskuldabréfa
Fjárfestar sem búsettir eru erlendis áttu íslensk ríkisskuldabréf fyrir 51 milljarð íslenskra króna að markaðsvirði í lok júlí. Þetta nemur helmingi íslenskra ríkisskuldabréfa á móti eign innlendra aðila. Þetta er talsverð aukning á milli ára en á svipuðum tíma í fyrra áttu fjárfestar með búsetu erlendis 27 prósent ríkisskuldabréfa að verðmæti 24 milljarða íslenskra króna.
Stofna félag um fjárfestingar
Glitnir hefur stofnað fjárfestingarfélag í Noregi á sviði fasteigna ásamt Saxbygg og öðrum smærri fjárfestum frá Íslandi. Tilgangur félagsins er að fjárfesta í fasteignum í Noregi og á Norðurlöndunum. Union Group, sem Glitnir á 50,1 prósents hlut í, mun sjá um rekstur félagsins. Eigið fé hins nýja félags er ríflega fimm milljarðar íslenskra króna og fjárfestingargeta milli tuttugu og þrjátíu milljarða.

Yfirtöku TM á NEMI lokið
TM hefur lokið við yfirtöku á norska tryggingafélaginu NEMI. Á hluthafafundi var Óskar Magnússon kjörinn stjórnarformaður en auk þess tók Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar TM, sæti í stjórn auk Anne Gro Sundby, Erling Christiansen og Bjørn Mæhlum. Ivar S. Williksen hefur verið ráðinn forstjóri.

Microsoft ætlar gegn YouTube
Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft ætlar að setja á laggirnar þjónustu við myndskrárhluta MSN Video, sem gerir netverjum kleift að setja myndskrár af öllum toga á netið. Með þessu er fyrirtækið að demba sér í samkeppni við vefsetrið YouTube, Google og MySpace.

Nissan flytur framleiðslu til Japans
Japanski bílaframleiðandinn Nissan Motors ætlar að flytja framleiðslu á einni gerð fjölskyldubíla frá Bandaríkjunum til Japans. Ákvörðunin er sögð í hagræðingarskyni, auk þess sem fyrirtækið vill rýma fyrir framleiðslu á nýrri gerð bíla frá Nissan í Bandaríkjunum.

Tilboð í bandaríska spilavítakeðju
Tveir bandarískir fjárfestingarsjóðir, Apollo Management og Texas Pacific Group, hafa gert yfirtökutilboð í bandarísku hótel- og spilavítakeðjuna Harrahs Entertainment. Tilboðið hljóðar upp á 15,1 milljarð Bandaríkjadala, jafnvirði 1.000 milljarða íslenskra króna. Ef boðið gengur eftir munu þetta verða fjórðu stærstu fyrirtækjakaup sem gerð hafa verið í Bandaríkjunum.

Styttist í sveigjanlega tölvuskjái
Hópur verkfræðinga við Cambridge-háskóla í Bretlandi hefur búið til sveigjanlegar og þunnar plötur úr málmblöndu. Vonir eru bundnar við að hægt verði að búa til örþunnan tölvuskjá úr sveigjanlegu efni úr málmblöndunni, sem hægt verður að rúlla upp líkt og blaði.

Hulunni svipt af andlitinu á Mars
Sérfræðingar Evrópsku geimvísindastofnunarinnar (ESA) hafa svipt hulunni af bungunni leyndardómsfullu á Mars. Um er að ræða hæð eða lítið fjall á yfirborði plánetunnar.

Rafhlöður innkallaðar
Lenovo og IBM hafa ákveðið að innkalla tilteknar rafhlöður framleiddar af Sony Corporation sem seldar voru með ThinkPad-fartölvum á tímabilinu febrúar 2005 til september 2006. Þetta er gert þar sem einstaka rafhlöður geta í undantekningartilvikum ofhitnað. Þó er einungis vitað um eitt tilfelli þar sem rafhlaða í ThinkPad-fartölvu hefur bilað af rúmlega 500.000 sem eru í notkun. Verður þessum rafhlöðum skipt út viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

Stefnt að skráningu Icelandair fyrir áramót
FL Group og Glitnir hafa gert með sér samkomulag sem felur í sér að Glitnir sölutryggir 51 prósents hlut í Icelandair Group. Þetta þýðir að Icelandair Group hverfur úr samstæðu FL Group þegar áreiðanleikakönnun lýkur. Stefnt er að því að henni ljúki um miðjan október og verður Icelandair Group skráð á hlutabréfamarkað fyrir áramót.
Næstmesta verðbólgan á Íslandi
Verðbólga mældist 3 prósent á ársgrundvelli innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, í ágúst. Þetta er 0,1 prósentustigi minni verðbólga en mældist fyrir mánuði. Verðbólgan er líkt og fyrri mánuði næstmest hér á landi en mest í Tyrklandi.

Viðræðum um sölu á Icelandair slitið
Slitnað hefur upp úr viðræðum FL Group og Kaupþings um kaup bankans á Icelandair, dótturfélagi FL Group, fyrir hönd fjárfestingarfélagsins Kers hf. Ker er í eigu Ólafs Ólafssonar, eiganda Samskipa.

Viðskipti stöðvuð með bréf í FL Group
Viðskipti voru stöðvuð með bréf FL Group í Kauphöll Íslands í morgun. Ekki liggur fyrir hver ástæðan er á þessari stundu en í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að fréttar sé að vænta.

Olíuverðið aftur niður
Heimsmarkaðsverð á hráolíu hélt áfram að lækka í dag, annan daginn í röð, á helstu fjármálamörkuðum eftir nokkrar verðhækkanir í síðustu viku. Ástæðan fyrir lækkuninni er bjartsýni fjárfesta um auknar olíubirgðir í Bandaríkjunum.

Hvetur til umræðu um krónuna
Kostnaður við krónuna sem gjaldmiðil er meiri en nemur ávinningnum af því að halda henni, segir Michael E. Porter, prófessor við Harvard Business School, sem af mörgum er talinn einhver áhrifamesti viðskiptahugsuður vorra tíma.

Atorka í mál við Kauphöll Íslands
Kauphöll Íslands sektaði í gær Atorku Group um 2,5 milljónir króna fyrir villandi upplýsingagjöf í tilkynningu. Atorka mótmælir ákvörðuninni harðlega og kveðst standa vel að upplýsingagjöf og vera það félag Kauphallarinnar sem birti ítarlegust uppgjör um starfsemi sína.

Greiðir út nítján milljarða í arð
Arðgreiðslan lokaliður í því að slíta á eignatengsl KB banka við Existu. KB banki hefur boðað til hluthafafundar þann 16. október þar sem stjórn bankans leggur til að bankinn greiði hluthöfum sínum aukaarð í formi hlutabréfa í Existu.
Kauphöllin áminnir Atorku
Kauphöll Íslands áminnti Atorku Group opinberlega í dag vegna brota á reglum Kauphallarinnar vegna birtingar á uppgjöri félagsins á fyrri hluta ársins. Beitti Kauphöllin félagið 2,5 milljóna króna févíti.

Spá hækkun stýrivaxta
Greiningardeild Glitnis telur líklegt að Seðlabankinn hækki stýrivexti sína um 25 punkta 2. nóvember næstkomandi og að vextirnir fari í 14,25 prósent. Þá telur deildin líkur á að bankinn byrji að lækka vexti eftir mars á næsta ári og verði þeir komnir niður í 10 prósent fyrir lok ársins.
Sigrún til Evrópuskrifstofu SA
Sigrún Kristjánsdóttir hefur hafið störf á Evrópuskrifstofu Samtaka atvinnulífsins í Brussel. Hún tekur við af Evu Margréti Ævarsdóttur sem lætur innan skamms af störfum á Evrópuskrifstofunni.

KB banki greiðir arð með bréfum í Exista
KB banki hefur boðað til hluthafafundar þann 16. október þar sem stjórn bankans leggur til að bankinn greiði hluthöfum sínum arð í formi hlutabréf í Existu. Arðgreiðslan nemur 19,2 milljörðum króna.

Olíuverð hækkar
Heimsmarkaðsverð á hráolíu hækkaði lítillega á helstu fjármálamörkuðum í dag í kjölfar þess að Nígería og Venesúela, sem eru aðildarríki samtaka olíuútflutningsríkja, OPEC, ákváðu að draga úr útflutningi til að bregðast við talsverðum verðlækkunum síðustu vikurnar og draga úr framboð á olíu.

SAS sýnir Icelandair áhuga
Flugrisinn SAS hefur samkvæmt heimildum Fréttablaðsins sýnt áhuga á að kanna kaup á Icelandair. Forsvarsmenn SAS hafa sett sig í samband við FL Group og lýst áhuga á að skoða kaup á félaginu.

Dótturfélag Eimskips kaupir breskt flutningafyrirtæki
Innovate Holdings Limited, dótturfélag Eimskips, hefur fest kaup á Corby Chilled Distribution Limited sem er leiðandi í dreifingu á hitastýrðum matvælum í Bretlandi.

Samskip undir nýju merki
Á morgun verða tímamót í sögu Samskipa en þá sameinast öll starfsemi félagsins sameinast undir einu nafni og nýju merki. Breytingunum er ætlað að styrkja enn frekar ímynd Samskipa á alþjóðlegum flutningamarkaði. Velta Samskipa hefur þrefaldast er búist við að hún nemi 60 milljörðum króna á yfirstandandi rekstrarári.

Samskip undir einu merki
Á morgun verða tímamót í sögu Samskipa en þá sameinast öll starfsemi félagsins sameinast undir einu nafni og nýju merki. Breytingunum er ætlað að styrkja enn frekar ímynd Samskipa á alþjóðlegum flutningamarkaði. Velta Samskipa þrefaldast og nema 60 milljörðum króna á yfirstandandi rekstrarári.

Nýtt verðmat á Alfesca
Greiningardeild Landsbankans hefur gefið út nýtt verðmat á Alfesca. Í verðmatinu segir að umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir Alfesca undanfarið hafi borið árangur. Reksturinn sé á réttri leið og er gert ráð fyrir rekstrarbata næstuárin. Greiningardeildin mælir því með að fjárfestar haldi í bréf sín í félaginu.


Ryanair spáir auknum hagnaði
Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair spáir því að hagnaður félagsins á yfirstandandi rekstrarári, sem lýkur í mars á næsta ári, muni nema 335 milljónum evra, jafnvirði tæpra 30 milljarða króna. Þetta er 11 prósenta hækkun á milli ára.

2,5 prósenta verðbólga í Bandaríkjunum
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,2 prósent í Bandaríkjunum í ágúst. Þetta jafngildir 2,5 prósenta verðbólgu á ársgrundvelli ef undan er skilin hækkun á matvöru- og raforkuverði, samkvæmt útreikningum viðskiptaráðuneytis Bandaríkjanna. Verðbólga hefur ekki verið meiri í Bandaríkjunum í rúm 11 ár.